18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Lárus H. Bjarnason:

Eg stend upp sérstaklega til að víkja af mér því góðyrði hv. þm. Akureyrar, að eg hafi gert glapræði á þinginu 1909, með því að samþykkja þá bannlögin, þó að þá væri ekki fundið ráð til að bæta það skarð í tekjum landsins, sem leiða hlaut af missi áfengistollsins. Hafi mig hent það glapræði, þá hefir hv. þm. Akureyrar líka hent sama glapræðið. En við gerðum hvorugur neitt glapræði með því. Við samþyktum bannlögin, af því að við allir bjuggumst við því, að stjórnin — og það var skylda stjórnarinnar — mundi áður en bannlögin skyllu á benda á aðrar leiðir til að bæta landssjóði tekjumissinn. Við gengum allir útfrá því sem gefnu, að ný skattalög yrði borin undir þetta þing. Þetta hefir líka vakað fyrir háttv. þingm. Hann kannaðist þá við, að um „stórkostlegt fjármál“ væri að ræða, þar sem bannlögin væru, sjá Alþt. 1909 bls. 533. En nú hefir stjórnin algerlega brugðist þessum vonum og þessvegna verður að fresta bannlögunum, en þó sem styzt. Fyrir mér vakir sem sagt, ekki svo mjög að auka tekjur landssjóðs í svip, eins og það að gefa stjórninni tíma til að benda á nýjar leiðir, svo að ekki þurfi að leggja landið í hættu eða að minsta kosti mikla fjárhagslega óvissu, þegar bannlögin koma til framkvæmda. En styttri frestunin nægir bæði til að sjá fyrir sæmilegum tekjum fyrir fjárhagstímabilið 1912—13, og til þess að undirbúa tekjulög í stað áfengistollsins. Frv. hv. þm. Ísafjarðarkaupstaðar fer óþarflega langt og er þó líka bara til bráðabirgða, enda tilheyrir það endanlegri skattalöggjöf að sjá hér fyrir varanlegri bót. Vonandi að menn skilji þetta. Fullorðnir menn með sjón á báðum augum mega ekki einblína svo á eitt atriði, að þeir sjái ekkert annað. Geri þeir það, þá líkjast þeir hestum, sem hafa skýlu á gagnaugunum og sjá ekki nema beint fram undan sér. Víðsýnir bannvinir hafa meiri ástæðu til að óttast þurð í landssjóðnum fyrir fyrirhyggjuleysi þings og stjórnar um að sjá fyrir nýjum tekjum, heldur en frestun. Þverri um of í landssjóðnum, munu vakna raddir í landinu, sem heimta ekki að eins frestun bannlaganna heldur ef til vill algert afnám þeirra.