14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

86. mál, sjúkrasamlög

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm):

Þetta frumvarp er nýmæli og eg vonast eftir að flestir játi, að það sé gott nýmæli. Þessi sjúkrasamlagahreyfing er orðin sterk í öðrum löndum, en hefir ekki borist hingað til lands fyr en nú á síðustu árum. Það eru Oddfellowar, sem hafa vakið þessa hreyfingu og er félag þeirra, eins og allir vita, góðkunnugt út um allan heim. Yfirmaður Oddfellowreglunnar hér á landi skrifaði rækilega ritgerð um þetta efni fyrir tveimur árum. Sú ritgerð var birt í Skírni 1909 og var auk þess sérprentuð og dreift víðs vegar út um land. Þar er ítarlega skýrt frá eðli og fyrirkomulagi sjúkrasamlaga og hve langt hreyfingin er komin í ýmsum löndum, bæði Norðurlöndum og víðar, Þýzkalandi, Frakklandi, Englandi o. s. frv. Og jafnframt hvetur höfundur til þess, að Íslendingar fari að dæmi annara þjóða í þessu og bendir á nauðsynina til sjúkrasamlaga hér á landi ekki síður en annarstaðar. Þetta hafði nú þann árangur, að haustið 1909 var stofnað sjúkrasamlag hér í Reykjavík, og er það víst það eina, sem til er hér á landi, með líku fyrirkomulagi og hin útlendu sjúkrasamlög. Í desembermánuði sama ár kom út önnur ritgerð eftir sama höfund, einnig í Skírni, um starf og stjórn sjúkrasamlaga. Þar er mjög hvatt til að stofna slíkan félagsskap sem víðast hér á landi og jafnframt birt uppkast að lögum fyrir sjúkrasamlög, samið af 5 manna nefnd, er Oddfellowastúkan hér hafði kosið til þess. Tildrögin til þeirrar nefndarskipunar voru þau, að stofnendur sjúkrasamlagsins í Reykjavík höfðu leitað til stúkunnar og beðið um bendingar í þessum efnum. Með því að líta yfir þetta uppkast að lögum, sem nefndin hefir samið, má fá glögga hugmynd um tilgang og fyrirkomulag slíkra félaga. Sjúkrasamlögin eru tryggingarfélög og tilgangurinn er líkur tilgangi annara tryggingarfélaga, t. d. brunabótafélaga, lífsábyrgðarfélaga o. s. frv. Hér er tilgangurinn að tryggja menn gegn fjártjóni, er stafa kynni af sjúkdómum. Félagsmenn leggja ákveðin tillög í sameiginlegan sjóð, og fá aftur á móti sjúkdómskostnað greiddan úr félagssjóði eftir vissum reglum, fyrst og fremst borgun fyrir sjúkrahúsvist, meðul og læknishjálp og auk þess nokkurn hluta þess vinnukaups, sem þeir missa vegna sjúkdómsins. Það má og geta þess, að þessi sjúkrasamlög eru að því leyti frábrugðin alþýðustyrktarsjóðunum, að þar verða styrkþurfar að sækja um styrkinn, en í sjúkrasamlögunum á hver félagsmaður beint heimting á ákveðnum styrk, ef skilyrðin eru annars fyrir hendi.

Máli þessu hefir ekkert miðað áfram hér á landi síðan Sjúkrasamlag Reykjavíkur var stofnað. Undirtektirnar hafa verið daufar og því hefir helzt verið barið við, að almenningur hefði ekki efni á að borga tillög í slíka sjóði. En það er einmitt tilgangurinn með þessum sjúkrasamlögum, að tryggja fátæklingana gegn fjártjóni af sjúkdómum. Félögin eiga aðallega að vera fyrir fátækt fólk eða efnalítið fólk, því að þeir einir eiga að fá inngöngu í félögin, sem hafa í árstekjur 1200 kr. eða þar fyrir neðan, að viðbættum 100 kr. fyrir hvert barn í ómegð, er þeir hafa fram að færa. Þessari kostnaðarviðbáru er því bezt svarað á þá leið, sem gert er í ritgerð þeirri í Skírni, sem eg mintist á áðan, að það er svo langt frá því, að menn hafi ekki efni á að vera í slíkum félagsskap, að almenningur hefir einmitt ekki efni á að vera fyrir utan hann. Það er hverjum manni ábati að geta trygt sig gegn fjártjóni af sjúkdómi, og í rauninni því æskilegra, sem efnin eru minni til þess að þola þann skaða, sem alt af má búast við að geti leitt af sjúkdómsáföllum. En þeir sem eru í sjúkrasamlagi fá allan slíkan skaða bættan.

Við tveir Oddfellowar hér í deildinni höfum flutt þetta frumvarp fyrir tilmæli landlæknis Guðmundar Björnssonar, sem er yfirmaður Oddfellowastúkunnar hér á landi. Frumv. er stutt og að því leyti ólíkt þeim lagabálkum, sem gilda um þessi efni í öðrum löndum. Aðalefni frumv. er það, hver sé tilgangur sjúkrasamlaganna, og í öðru lagi, hver séu skilyrðin fyrir því, að sjúkrasamlög geti orðið lögskráð. Og svo loks þetta, að lögskráð sjúkrasamlag á að fá styrk úr landsjóði sem svarar 2 kr. á ári á hvern félaga. — Það er ekki vanþörf á því, að eitthvað sé gert af hálfu hins opinbera til þess að örfa menn til slíks félagsskapar, og þá er bezta ráðið að veita sjúkrasamlögunum dálítinn styrk. Það kann nú að verða sagt, að landsjóður hafi ekki efni á því að taka á sig þess konar byrðar. En hér er ekki um mikil útgjöld að ræða. Að því er eg veit bezt og hef áður vikið á, er Sjúkrasamlag Reykjavíkur hið eina, sem stofnað hefir verið hér á landi enn sem komið er, og það er ekki líklegt, að þau þjóti upp á skömmum tíma, þó að þessi lög verði samþykt. Þess vegna munu útgjöld landsjóðs ekki verða mikil í reyndinni, fyrst um sinn, því miður. En mér finst löggjafarvaldið ætti að gera einhverja tilraun til þess að ýta undir menn til framkvæmda, þegar um slíkt velferðarmál er áð ræða. Eg vil ekki lengja umræðurnar með því að halda langa ræðu um þetta að sinni, enda geta þeir sem þess óska fengið beztar upplýsingar um málið með því að lesa ritgerðir Guðmundar Björnssonar í Skírni. Nauðsynin til sjúkrasamlaga kemur bezt fram, þegar litið er á skýrslu fátækramálanefndarinnar um það, af hverjum ástæðum menn komast á sveit. Eg skal að eins benda á það, að eftir þessari skýrslu er áætlað, að af 23 hundr. manna, sem þiggja af sveit, hafi 753 komist á vonarvöl vegna sjúkdóma og heilsubilunar, en t. d. vegna ómegðar að eins rúm 500 og vegna drykkjuskapar kringum 120. Eg get um þessar tölur að eins til samanburðar.

Ákvæðið, að engum megi veita viðtöku í sjúkrasamlag, sem orðinn er 40 ára að aldri, er einmitt sett til þess, að girða fyrir, að þeir verði samlagsmenn, er búast má við að innan skams verði vanburða og heilsulausir fyrir elli sakir.

Eg skal að síðustu drepa á það, að í Danmörku voru 1907, 1452 sjúkrasamlög. Þau vóru í því nær öllum bæjum eða 96% og í hreppum, eða 95% og nærfelt þriðjungur þjóðarinnar var í sjúkrasamlagi.

Sjóðeign þeirra var: 4,227,904 kr.

Tekjur 6,034,846 -

Útgjöld 5,809,565 -

Úr ríkissjóði fengu þau 1,691,188 -

Eg vona, að háttv. þingdeildarmönnum sé það ljóst, að nauðsyn sé á slíkum lögum og félagsskap, sem hér ræðir um, hér sem annarsstaðar. Eg vona, að þingið taki málið til rækilegrar athugunar, vona, að það verði að lögum í einhverri mynd, vona, meira að segja, að frumvarpið nái óbreytt eða lítið breytt fram að ganga, því eg tel það sé vel hugsað og vel frá því gengið.

Eg fjölyrði svo ei meira um málið, en sting upp á og vona, að þriggja manna nefnd verði skipuð til að ath. frv.

Þriggja manna nefnd samþykt í einu hljóði og hlutu þessir kosningu:

Stefán Stefánsson, Sigurður Hjörleifsson, Eiríkur Briem.

Önnur umræða í efri deild 24. marz (165, 258),