24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

86. mál, sjúkrasamlög

Ráðherra (Kr. J.). Háttvirtur framsögumaður hefur þegar bent deildinni á það sem eg ætlaði að benda henni á, en það, er að hér er lagður skattur á landsjóð, sem getur orðið talsverður; það er því varhugaverðara sem hér eru fleiri lög á ferðinni, sem fara í sömu átt, og vil eg þar til nefna lög um heyforðabúr, þar er öðrum skatti laumað inn á landsjóðinn og enginn veit, hve hár hann getur orðið.

Aftur á móti er ekki séð fyrir neinum tekjuauka fyrir landssjóð, enda þótt yfir landinu vofi mikið tekjutap á næstkomandi árum og ýms lög, sem nú eru fyrir þinginu, leggi veruleg útgjöld á landsjóðinn.

Ef til vill er deildinni kunnugt um, að um síðustu árslok gat landsjóður tæplega int af hendi skyldugjöld. Peningaskorturinn var þá svo mikill. —

Það er ekki til neins að vera að leyna því. Verður að segja það eins og það var. Og það er nú einnig mesta áhyggjuefni þeirra manna í stjórnarráðinu, sem þetta hafa með höndum, að eigi verða peningaþrot í landssjóði. — Eg vildi að eins leyfa mér að vekja athygli hinnar háttvirtu deildar á þessari hlið málsins.