06.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Kristinn Daníelsson:

Það er að eins lítið, sem eg hefi að segja út af breytingartillögum mínum. Hv. framsögumaður skaut því til mín í dag, að eg skyldi gefa frekari upplýsingar um þá fjárveitingu, sem eg hefi farið fram á til minnisvarða Jóns Sigurðssonar fyrir vestan. Eg verð að taka það fram, að hvorttveggja, minnisvarðinn og athöfnin, sem á að fara fram um leið og hann verður afhjúpaður, skoða Vestur-Ísfirðingar sem eitt málefni, eina athöfn. Þeir skoða það sem skyldu sína að halda uppi virðingu og heiðri Jóns Sigurðssonar á fæðingarstað hans. Eg er viss um, að allir þm. meta þetta vel við héraðsbúa og vilja á einhvern hátt styðja það, að þeir geti gert það sómasamlega. Það var tekið fram, að safnast hefði með frjálsum samskotum hátt upp í það, er minnisvarðinn kostar, og sagt, að mér skildist, að ekki væri rétt að veita meira en það sem á vantaði. En eg get upplýst það, að fé það sem skotið hefið verið saman hefir ekki fremur verið gefið til myndarinnar, en til hinnar umtöluðu athafnar: hátíðahaldsins. En þrátt fyrir þetta hefi eg heyrt, að hv. þm. þyki munnurinn tekinn nokkuð fullur, beðið um helzt til mikið, en væru fúsir á að styrkja þessa athöfn nokkuð. Eg hefi því afráðið að taka tillöguna aftur, en koma með hana aftur við 3. umræðu í breyttri og að eg vona í aðgengilegri mynd. — Þá vil eg minnast lítið eitt á hina brtill. Eg var ekki inni, þegar háttv. framsögumaður mintist á hana, en hann skaut því að mér, að hann hefði sagt, að til þess að þessi beiðni Súgfirðinga yrði tekin til greina, þá yrði að fylgja henni meðmæli símastjóra. Eg tek það fram, að eg vil ekki með nokkru móti kasta mér yfir sérfræðinga í þessari eða öðrum greinum eða gera lítið úr þeim. Eg hefi þvert á móti oft átt í baráttu við alþýðumenn, þegar þeir hafa verið að gera lítið úr sérfræðingum, t. d. læknum og leitað til homopata. En þrátt fyrir þetta þá vil eg taka það fram, að tillitið til þeirra verður að vera innan hæfilegra takmarka. Það liggja freistingar á vegi þeirra, þeim hættir við að verða nokkuð einhliða og draga taum síns máls um of. Þeir þurfa því að hafa sína yfirmenn, sem við og við grípa í taumana, því það ber oft við, að sérfræðingar verða einstrengingslegir í vissar áttir. Þetta getur einnig átt við símastjórann, t. d. að honum hafi í deilunni milli loftskeyta og síma hætt við að halda fast við sína grein, en þó segi eg ekki að hann hafi gert þetta um skör fram. Eg vil hafa þetta mál undan þegið því, að símastjóri þurfi að leggja með því, án þess eg þó viti, hverjar tillögur hans mundu verða. Samt hefi eg frekari ástæðu til að búast við að hann mundi leggja á móti þessu máli, eg veit jafnvel hvers vegna. Eg hefi átt tal við hann um þetta og sagði hann mér þá, að hann hefði lagt fast „skema“ yfir talsíma, sem ætti að leggja hér á landi, og sagði að sér væri hugþekkast að brjóta ekki út af því. En samkvæmt því „skema“ getur Súgandafjörður ekki fengið síma fyrst um sinn. Það er þetta sem sérfræðingunum hættir við, að verða of einstrengingslegir og fara eftir vissum reglum, sem þeir vilja ekki víkja frá, en sem koma ekki alt af heim við það sem hentugast er og hagfeldast. Það er oft full ástæða til að fara út fyrir kerfið. Hér á þetta sér einmitt stað; það er full ástæða til þess að leggja þennan símaspotta til Súgandafjarðar á undan öðrum símum og það því fremur sem þetta litla hérað vill leggja svo mikið á sig til að fá símann, að borga einn þriðja part af kostnaðinum. Auðvitað hefi eg ekki á móti því að leitað sé álits símastjórans um þetta mál, en eg sé ekki ástæðu til þess og eg mælist til að hv. deild láti hann ekki einráðan í þessu efni, að honum algerlega ólöstuðum.