28.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

42. mál, vitagjald

Sigurður Stefánsson:

Framsögumaður þessa máls er veikur og hefir beðið mig að mæla nokkur orð með þessu frumvarpi.

Eins og kunnugt er, er þetta frumvarp til vor komið frá háttv. neðri deild. Það er upprunalega stjórnarfrumv. En stjórnarfrumvarpið var aftur samhljóða frumvarpi, er milliþinganefndin í skattamálinu hafði samið. Hún ætlaðist til þess, að lausafjárskattur af fiskiskipum yrði afnuminn og þetta gjald átti að koma í staðinn. Frumvarp milliþinganefndarinnar um afnám lausafjárskattsins lagði stjórnin ekki fyrir þingið, en fer samt sem áður fram á hækkun á vitagjaldinu, fer samkvæmt frumvarpi þessu fram á, að vitagjald af millilandaskipum hækki og að innlend fiskiskip verði vitagjaldskyld. Ástæður stjórnarinnar fyrir þessari hækkun er, að útgjöld landsjóðs til vitanna hækka óðum. Samkvæmt fjárlagafrumv. er vitagjaldið áætlað um 80 þús. krónur, en tekjurnar af vitagjaldi að eins 40 þús. krónur. Hvað tekjurnar af hækkun vitagjaldsins muni nema miklu, verður ekki séð í ástæðum stjórnarinnar. En milliþinganefndin áætlaði, að hún mundi nema um 10 þús. kr. Stjórnin hefir tekið þessa hækkun upp í fjárlagafrumvarpið. Það hefir nú ekki verið sá siður hingað til, að taka upp í fjárlögin þá hækkun á tekjum, sem gerist samkvæmt lögum, er koma eiga til framkvæmda á sjálfu fjárhagstímabilinu.

Nefndin hefir nú íhugað málið. Henni þótti ekkert athugavert við frumvarpið annað en það, að lágmark vitagjaldsins væri nokkuð hátt. Henni þótti því ástæða til að breyta 2. málsgr. 1. greinar þannig, að 4 kr. kæmu í stað 5 kr. Það varð nokkur ágreiningur um þetta í nefndinni. Þegar þess er gætt, að hver mótorbátur, hve lítill sem hann er og sem að eins er hafður til fiskiveiða innfjarðar, á að greiða þetta gjald, virðist það líka of hátt. Það er mjög ósanngjarnt, að svo lítil skip greiði svo hátt gjald að tiltölu við 25 au. gjald stærri skipanna af hverri smálest af rúmmáli þeirra, en þessir smábátar eru ef til vill ekki nema eitt „ton“. Þó þótti ekki ástæða til að lækka gjaldið meira og það varð úr, að réttast væri, að það væri sett 4 kr. — og er það þó full hátt. Eg skal geta þess, að skemtiskip hafa að undanförnu verið undanþegin þessu gjaldi. En þessu hefir nú verið breytt í þessu frumv., svo að þau eiga nú að greiða það sem önnur skip. Skip þessi eiga vanalega stórríkir menn og má því segja, að það muni ekki mikið um gjald þetta, en hins vegar er spurning um, hvort þetta væri ekki brot á „international“ kurteisi, en hún vildi þó ekki koma með brtill. um þetta.