14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

14. mál, heyforðabúr

Sigurður Stefánsson:

Eg skal ekki vera langorður. Mál það, sem hér liggur fyrir, hefir oft verið á dagskrá þings og þjóðar — og er hið mesta vandræðamál. Hér er um þau atriði í íslenzkum landbúnaði að ræða, sem eru næsta vandasöm og erfið viðureignar og ákvæði frumvarpsins mundu aldrei geta komið að verulegum notum. Það hljóðar um heyforðabúr og heyásetningareftirlit. En það er erfitt að segja bændum fyrir, hve mikið þeir skuli setja á — og er þar margt á að líta. Þó að tveir bændur séu jafn heybirgir, getur annar komið fram fé sínu í góðum holdum, en hinn orðið heylaus og felt fénað sinn. Það er talað um, að ákveða megi í samþyktum þeim, er frumvarpið heimilar, að hreppsnefndin semji við bændur um, að þeir hafi til ákveðinn heyforða handa þeim búfjáreigendum, er lenda kunna í heyþroti. Beztu búmennirnir í sveit hverri munu verða næsta tregir á að lofa svo löngu fyrir fram, sem þörf krefur í þessu efni, ákveðnum heyforða, teldu það lítt samrýmanlegt við sína eigin hagsmuni

Frumvarp þetta bindur landsjóði líka byrðar á herðar, þar sem svo er til ætlast að hann endurgreiði sveitarsjóðum að helmingi þann kostnað, sem heyforðabúrin hafa í för með sér. En það yrði erfitt fyrir fjárveitingarvaldið að hafa eftirlit með því, að þetta ákvæði yrði ekki misbrúkað.

Eg vil samt ekki leggja til, að málið sé felt við 1. umr., en vona, að það verði sett í nefnd, en geri mér raunar ekki von um mikinn árangur af því.