14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

14. mál, heyforðabúr

Gunnar Ólafsson:

Eg álít málið ekki þess vert, að það fari héðan út úr deildinni og sé enga ástæðu til nefndarskipunar. Vér höfum nóg lög, svo sem horfellislögin, er stefna að því, að gera bændur ófullveðja og ósjálfstæða. Menn verða ekki gerðir hygnir með eintómum lögum. Það hefir sýnt sig, að þau — horfellislögin — hafa ekki gert gagn, en þessi lög eru angi út úr þeim. Þau eru tildur úr þessum búráðunautum, sem úir og grúir af um landið, og sem álíta sig kjörna til að stýra öllum athöfnum bænda, með alls konar lagasetningum og eru þessi lög — ef að lögum verða — eitt dæmi þess. Því að hin eldri lög þykja þeim ekki ná nógu langt. Þetta frumvarp getur engu góðu til leiðar komið, en hlýtur að auka mönnum kostnað og erfiði. Það leggur hreppsnefndum starf á herðar og þær eru fullhlaðnar störfum. Þótt koma mætti á heyforðabúrum, þá mundi hagnaðurinn verða lítill. Bændur mundu reiða sig á þau og setja á þau, en ella mundu þeir setja á hey sín. Það yrði enginn annar árangur af frumvarpinu en kostnaðurinn einn, líkt og af sumum öðrum lögum frá þinginu. Eg er því mótfallinn frumvarpinu.