24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

14. mál, heyforðabúr

Framsögum. (Sig. Stefánsson):

Eg sé ekki ástæðu til að halda langa ræðu um þetta mál. Álit nefndarinnar liggur fyrir deildinni, og geta hv. deildarmenn séð ástæður hennar í því. Þó að nefndin leggi til að frv. verði samþykt, þá er henni það samt sem áður ekkert kappsmál. Hún viðurkennir fyllilega, að ærna örðugleika er við að stríða í því efni, að koma í veg fyrir fóðurskort hjá bændum. Það er kunnugt að árlega er mikið talað um að koma á tryggingu fyrir því, að búpeningur falli ekki sakir fóðurskorts. Að því miðuðu lögin um kornforðabúr, er samþykt voru á síðasta þingi. En sú hefir raunin orðið, að landsmenn hafa tekið þeim dauflega, og þó er töluvert hægra að koma þeim á fót en heyforðabúrum. Vitaskuld er það skylda löggjafarvaldsins að gefa sem beztar leiðbeiningar í þessu efni, meðan búhygni er eigi meiri í landinu en víða á sér stað nú; en hinsvegar er hætt við, að lagasetning um þetta efni komi ekki að tilætluðum notum. En þar eð hér er að eins um að ræða heimild fyrir sveitarstjórnir til að gera samþyktir um heyforðabúr, þá álítur nefndin ekki frágangssök að samþykkja frumvarpið.

Eg get verið fáorður um einstakar greinar frv. Það kom frá búnaðarþinginu, en var breytt í n. d., en við nánari athugun kom það í ljós, að ein þeirra breytinga er í ósamræmi við annað ákvæði í frv. Í 2. gr. mælir svo fyrir, að á hreppsfundi skuli allir þeir hreppsbúar hafa atkvæðisrétt um samþyktir, sem kosningarrétt hafa til alþingis. Þetta ákvæði var líka í hinu upphaflega frv. búnaðarþingsins. Það kom til tals á búnaðarþinginu, hvort ekki væri eðlilegast, að búendur einir hefðu atkvæðisrétt, en þó varð niðurstaðan sú, að ekki þótti rétt að útiloka aðra hreppsbúa frá atkv.rétti, þar sem þeir bæru líka sinn hluta af kostnaðinum við forðabúrin. En í n. d. var bætt inn í 3. gr. frv. orðunum í 3. línu: „þeirra búenda er atkvæðisrétt eiga“. Af þessari viðbót leiðir ósamræmi milli 2. og 3. gr. Það getur verið álitamál, hvort binda eigi atkvæðisréttinn við bændur eða eigi. Búnaðarþinginu fanst hitt eðlilegast, að hann næði til allra alþingiskjósenda í hreppnum, þar sem kostnaðurinn hvíldi jafnt á þeim öllum. En nefndin mun athuga þetta atriði til 3. umræðu. — Það sem nefndinni þótti varhugaverðast við þetta frv. var kostnaðurinn, sem það mundi baka landsjóði, ef það yrði samþykt. Hins vegar áleit nefndin, að þó að sveitum yrði veitt þessi heimild, mundi hún ekki verða mikið notuð, því að samþyktirnar myndu gerðar í tiltölulega fáum hreppum, heyforðabúranna er mest þörf í heyskaparlitlum útkjálkahéruðum þar sem örðugt er til kornfanga úr kaupstað, en í þeim sveitum er þörfin því mest á þessum samþyktum, en örðugleikarnir því mestir að koma þeim á fót. Þær sveitir verða því að líkindum fáar, sem nota sér heimildina, og því verður kostnaðurinn fyrir landsjóð ekki ýkjamikill. Verði forðabúrin aftur á móti mörg og mikill forði ónotaður ár frá ári, getur kostnaðurinn auðvitað orðið æði mikill. Ef t. d. er stofnað forðabúr með 200 hestum, og allur sá forði er óeyddur, kostar það landsjóð 80 kr. samkv. frumv. En fyrir slíku var vart ráð gerandi og því telur nefndin víst, að kostnaðurinn verði aldrei svo verulegur, að ástæða sé til að fella frv, að eins vegna hans. Skal eg svo ekki fara fleirum orðum um málið. Nefndinni er það ekkert kappsmál, eins og eg hefi þegar tekið fram en vill þó ekki gera sveitarstjórnum ómögulegt að koma þessum samþyktum á; leggur hún því fyrir sitt leyti með að frv. verði samþykt.