24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

14. mál, heyforðabúr

Sigurður Stefánsson:

Háttv. þingm. Vestur-Skaftfellinga fórust þannig orð, sem hér væri um að ræða almenn þvingunarlög.

Það er algerður misskilningur. Hér er einungis farið eftir því, hvað bændur vilja sjálfir, og að þetta miði til þess, að gera bændur á nokkurn hátt ósjálfstæðari en þeir eru nú, get eg engan veginn skilið. Ber það vott um ósjálfstæði, þótt bændur sjálfir bindist frjálsum samtökum um að sjá skepnum sínum borgið? Þvert í móti.

Þá fyrst mætti ef til vill segja, að nokkuð væri gengið nærri mönnum, ef fyrirskipað væri með lögum, að heyforðabúr skyldi stofnsetja í hreppi hverjum, en um það er hér ekki að ræða.

Þá talaði sami háttv. þm. um, að ráðdeildarlitlir bændur mundu setja á forðabúrin og þau þá komast í þrot, en þó var hann hræddur við kostnaðinn fyrir landssjóðinn, er af þessu leiddi —, hér er þingmaðurinn gersamlega í mótsögn við sjálfan sig.

Ef enginn óeyddur heyforði er til, þá er líka kostnaðurinn enginn, landssjóðstillagið er einungis miðað við þann forða, sem óeyddur er.

Í nefndarálitinu er það tekið fram að þessi borgunarskylda landssjóðs mundi geta orðið til þess, að ýta undir duglega og framtakssama menn til þess að taka að sér að ábyrgjast sveitinni heyforða og tel eg það mikils virði og einna líklegasta ráðið til þess, að lög um þetta verði meira en á pappírnum. Ennfremur skal eg taka það fram, að varla mun nokkur vara goldin með jafn-miklum vanskilum og hey, sem látið er í harðindum. Þetta er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, því að venjulega eru það allra fátækustu mennirnir, sem í heyþrot komast. Eg fyrir mitt leyti finn ekkert á móti því, að einhver trygging sé sett fyrir því, að þeir menn, sem eru bústólpar sveitar sinnar, bíði ekki beint eignatjón með hjálpsemi sinni. Eg álít því, að landssjóðsgjaldið sé bezta tryggingin fyrir því, að heyforðabúrin komist á, þar sem þörfin er mest.

Að á nokkurn hátt geti stafað tjón af frumv. þessu, eins og háttv. þm. Vestur- Skaftfellinga vildi halda fram, get eg ekki með nokkru móti fallist á, og eg teldi lög þessi allareiðu mikils virði, ef þau gætu einhversstaðar á landinu orðið til þess að bjarga búpeningi manna frá horfelli.

Eins og eg að vísu hefi áður tekið fram, þá mótmælti eg því gersamlega, að verið sé hér að taka fram fyrir hendur bændanna, eins og hv. þm. Vestur-Skaftfellinga hélt fram; við því hafa verið reistar skorður. Þessi lög byggjast á vilja meiri hluta sveitabændanna sjálfra, þeirra, sem undir þeim eiga að búa, og þá er ekkert að óttast.

Viðvíkjandi athugasemdum hv. þingm. Vestur-Ísfirðinga, hefi eg það að segja, að sumt af því, er hann tók fram, má auðveldlega laga til 3. umr.