07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

67. mál, réttur kvenna

Framsögum. Jósef Björnsson:

Háttv. meðnefndarmaður minn hefir tekið ómakið af mér að hafa framsögu í þessu máli af því, að eg var ekki viðstaddur.

En vegna þess, að mig greindi á í einu atriði við meðnefndarmenn mína, þá skal eg gera stuttlega grein fyrir minni skoðun á því atriði. Það er þessi undanteking, að konur skuli ekki hafa rétt til prestsembætta. Eg held að það sé ekki hætta á því, að hér á landi rísi upp ágreiningsalda út af því, þó að konur fengju aðgang að prestsembættum jafnt og öðrum embættum. Eg skal ekki þrátta um það, hversu rík rök kunna að liggja að þessu frá sjónarmiði kirkjunnar. En frá mínu sjónarmiði eru harla léttvæg rök að slíkri undantekningu, og þar sem konur eiga jafnvel öllu hægra með að þjóna prestsembættum en sumum öðrum embættum, þá get eg ekki verið því samþykkur að útiloka þær frá þeim. Eg lít svo á að veita beri konum aðgang að sem flestum störfum, og einkum þó að öllum skólum til jafns við karlmenn. Það verður að gera ráð fyrir því, að skólaganga og mentun þroski mennina, hvort heldur eru karlar eða konur, og í því hlýtur að vera ávinningur fyrir þjóðfélagið að fá sem flesta þroskaða menn. Við það eykst þjóðinni í heild afl. Enn er þess að gæta, að þroski mannanna eflist ekki hvað sízt í skóla lífsins. Þessvegna er eg með því, að konur fái aukin réttindi yfir höfuð og það er trú mín og von, að þau auknu réttindi verði þjóðfélaginu til heilla og blessunar.