31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Það voru að eins örfá orð, er eg vildi segja út af ræðu háttv. 4. kgk. þm. (Stgr. J.). Hann mintist á, að afleiðingin af frumv. yrði sú, að laun ráðherrans yrði að hækka, og lenti þá í sama fari með kostnaðinn. Það þarf ekki að deila lengi um þetta atriði, því að það er auðsætt, að það yrði minni byrði að því fyrir þjóðina, að eftirlaunin væru lækkuð, en ráðherralaunin (eða embættislaunin) aftur hækkuð. Hækkun embættislaunanna mætti, að minsta kosti, vera mikil, ef það yrði ekki ábati að lækkun eftirlaunanna. Kostnaðurinn af ráðherra-eftirlaununum er þegar orðinn svo mikill, að hann samsvarar því, sem við hefðum tvo ráðherra. Það er því mikil nauðsyn á lækkun þeirra. Hv. 4. kgk. þm. (Stgr. J.) sagði, að frumv. væri ótímabært. Eg hygg aftur á móti, að það sé fullkomlega tímabært. Nú liggur hér fyrir þinginu stjórnarskrárfrumvarp, sem eg að vísu veit ekki um, hvernig að síðustu verður, en eftir því sem það nú er, á að fjölga ráðherrunum, svo að það er því mikil nauðsyn á frumv. þessu nú.

Þá drap hv. 4. kgk. þm. (Stgr. J.) á það, að ráðherra ætti rétt á eftirlaunum samkv. eftirlaunalögunum frá 1903. Yrði nú svo, sem hinn hv. þm. benti á, að hann ætti rétt til eftirlauna eftir þeim lögum, sem sé ? af allri launaupphæðinni + 20 kr. fyrir hvert embættisár, þá yrðu þau töluvert lægri en nú, en hærri en hér er farið fram á. Og þótt þau yrðu ekki hærri en ætlast er til í þessu frumv., getur það samt orðið álitleg fúlga, er landið þyrfti að borga í eftirlaun handa ráðherrum sínum.

Þá sagði hv. 4. kgk. þm., að hér væri verið að fara á bak við stjórnarskrána, og að hér væri að eins um skálkaskjól að ræða, er eftirlaunin væru færð svo mikið niður sem hægt væri. Þetta tel eg með öllu rangt. Það er ekkert skálkaskjól og það er alls ekki að fara á bak við stjórnarskrána að lækka eftirlaunin.

Þá efaðist sami hv. þm. um, að nokkur sparnaður yrði að þessu frumv., ef það yrði að lögum. Hann hélt því fram, að þar sem eftirlaunin væru svo lág, myndi fyrverandi ráðherrar senda beiðni til þingsins um, að þau yrðu hækkuð og að þingið mundi verða við bænum þeirra. Eg er aftur á móti ekki hræddur við, að þessar bænir kæmu fram, og því síður við, að þingið tæki þær til greina, þótt því bærust umsóknir um slíkt, og því tel eg það ugglaust, að hér sé um sparnað að ræða.

Enn sagði hv. sami þm., að þjóðin óskaði afnáms eftirlauna, en ekki þess frumv. sem hér ræddi um, því hér væri ekki farið fram á afnám. Þetta er rétt hjá hv. þm. En í þessu frumv. er leitast við að fara svo nærri óskum þjóðarinnar í þessu efni, sem hægt er, lækka eftirlaunin eins mikið og hægt er. Hann hnýtti þeirri athugasemd við þessi ummæli sín, að þjóðin hefði sízt af öllu óskað eftir að fá menn ginta inn í ráðherraembættið til þess, að þeir hefðu sjálfir af því óbeinan hagnað. Eg held nú ekki, að menn láti ginnast til að taka að sér ráðherrastöðuna í því skyni að hafa af henni óbeinan hagnað, frekar fyrir það, þótt frumv. þetta verði að lögum. Eg vil yfirleitt ekki gera mönnum þær getsakir, að þeir takist ráðherraembættið á hendur til þess að mata krókinn fyrir sjálfan sig.