31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Kristinn Daníelsson:

Af því að ég býst við, að atkvæði mitt fari nokkuð í aðra átt en á síðasta þingi, þykir mér hlýða að gera grein fyrir atkvæði mínu. Eg var þá mótfallinn afnámi ráðherraeftirlauna. Þá bygði eg skoðun mína á því að það væri óheimilt eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar. En nú held eg, að það ríði ekki í bága við hana, þótt ráðherraeftirlaun verði afnumin. Þar sem 2. gr. stjórnarskrárinnar kveður svo á, að „landssjóður Íslands greiðir laun og eftirlaun ráðherrans“, þá get eg ekki skilið þetta öðruvísi, en hér sé ekki átt við annað en að landssjóður, en ekki ríkissjóður eigi að greiða laun og eftirlaun Íslandsráðherra. Þá er ennfremur vitnað í 4. gr. stjórnarskrárinnar til stuðnings þeirri skoðun, að afnám ráðherraeftirlauna sé gagnstætt henni. Þar stendur: „Eftirlaun embættismanna skulu ákveðin samkvæmt eftirlaunalögunum“. Í þetta ákvæði hefir verið lagður sá skilningur, að embættismönnum skuli greidd eftirlaun. En eg get ekki fallist á hann. Eg álít, að í því felist ekki annað en það, að þegar embættismenn eigi að fá eftirlaun, að þá skuli þau greidd þeim samkvæmt eftirlaunalögunum. Þessi skilningur minn styðst líka við lögin 3. okt. 1903. Þar segir svo í 3. gr: „Eftirlaun ráðherra skulu ákveðin samkvæmt hinum almennu eftirlaunalögum. Konungi skal þó heimilt að ákveða ráðherranum alt að 3000 króna eftirlaun, ef honum ber minna samkvæmt eftirlaunalögunum“. Hér hefir þingið leyft sér, þegar það samdi lög þessi að víkja frá stjórnarskránni. Eftir skoðun sumra hefði þinginu 1903 átt að vera óheimilt að setja þetta ákvæði í lögin.

Aðalástæðan til þess, að eg á seinasta þingi var mótfallinn afnámi ráðherraeftirlauna var samt sú, að mér fanst sem loku væri skotið fyrir, að hæfilegur maður fengist í ráðherrastöðuna, ef hann ætti enga von á eftirlaunum. Síðan hefi eg hallast að sömu skoðun og háttv. 5. kgk. þm. (L. H. Bj.) lét í ljós. Ráðherraskifti hjá okkur virðast ætla að verða nokkuð tíð og ráðherraeftirlaunabyrðin því alvarleg. Það stendur að þessu leyti nokkuð öðru vísi á um ráðherra, en um aðra embættismenn. Það verður að gera eitthvað til að fyrirbyggja, að þessi byrði verði of þung á þjóðinni. Eg álít það til bóta, að ákveðin er lítilsháttar þóknun að eftirlaunum handa ráðherra, og eg greiði af þeirri sök frumvarpinu fúslega atkvæði mitt, er fráfarandi ráðherrum er ekki algerlega fleygt út á klakann.

Viðvíkjandi ræðu hæstv. ráðherra, þar sem hann sagði, að þjóðinni gæti stafað aukinn kostnaður af því, er ákveða ætti eftirlaun núverandi ráðherra, þá legg eg ekki mikla áherzlu á það atriði, að eftirlaun hans yrðu nokkuð rífleg. Það á ekki að keppa um að láta þau ná fram fyrir sig; eg ann honum rífra launa. Laun þessa eina manns hafa ekki mikla þýðingu fyrir framtíðina.