04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Ari Jónsson:

Það virðist svo sem flestir þingdeildarmanna séu meira eða minna óánægðir með frumv. eins og það kemur frá hv. neðri deild, og er það sízt að undra, því eins og það liggur nú fyrir kemur fram í því bersýnilegur ójöfnuður, sem fer eftir því, hvort maðurinn hefir verið embættismaður áður eða ekki, og eftir hvaða eftirlaunalögum honum ber eftirlaun. Ef t. d. ráðherra hefir ekki verið embættismaður áður, þá fær hann óskertar 1000 kr. á ári í ráðherraeftirlaun.

En ef nú ráðherra hefir verið embættismaður áður, þá horfir málið alt öðruvísi við.

Eins og kunnugt er, þá eru tvenskonar eftirlaunalög; hin fyrri frá 31. marz 1855 og gilda þau fyrir þá, er voru í embættum fyrir 1903, en fyrir hina, er síðar komu í embætti, gilda nýju eftirlaunalögin, og það er mikill mismunur á því, hvort heldur menn hafa eftirlaun samkv. eldri eða yngri lögunum.

Kemur þar fram mjög mikill ójöfnuður, að slíkt skuli hafa áhrif á ráðherraeftirlaun, eins og ætlast er til, samkv. þessu frumvarpi.

Þá vil eg taka það fram, að eg get ómögulega fallist á breytingartillöguna frá hv. 4. kkj. Eg vil alls ekki að svona lagað mál komi undir úrskurð konungs. Þá liggur hér og fyrir tillaga frá þremur hv. þingmönnum, sem fer fram á það, að ráðherra, ef hann hefir áður verið í embætti, skuli engin eftirlaun fá, heldur einungis hljóta 100 króna þóknun, fyrir hvert ár, sem hann þjónar ráðherraembætti. Þetta finst mér í alla staði ósanngjarnt. Með því móti getur ráðherrastaðan orðið beint fjárhagslegt tap. Hvaða sanngirni er í því, að embættismaður sem verður ráðherra, t. d. sýslumaður, er hafði fullan eftirlaunarétt, skuli engin eftirlaun fá fyrir ráðherraembættis-tímann ? Eg lít svo á, að maðurinn eigi ekki að verða ver settur en aðrir embættismenn, þótt hann verði ráðherra.

Eg er fyllilega samdóma hv. 6. kkj. og hv. 3 kk. um að eftirlaun ráðherra skuli vera 1000 kr., í hvaða stöðu sem maðurinn hefir áður verið, það er sanngjarnt, og jöfnuður er í því. Annars ætti maður það á hættu að síður fengist hæfir menn í embættið.