04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Gunnar Ólafsson:

Það eru skiftar skoðanir um þetta mál, eins og búast má við.

Það hefir altaf verið svo og verður enn, ef hreyfa á við gamalli venju, einkum þar sem peningar eru öðru megin.

Við þessa lækkun geta menn ekki unað sér. Þeir finna sitt ráðið hver, til þess að sprengja þetta. Auðvitað er það alt vel meint og hjúpað ýmsum slæðum til þess að gera það aðgengilegt. Í breytingartillögu á þingskjali 470 er talað um, að eftirlaunin séu alt að 2000 krónur á ári eftir úrskurði konungs. Þetta er slétt og fer vel á þessu. Það má láta í konungsvald hver eftirlaun verða. En hver ákveður með konungi um það? Er það ekki fráfarandi ráðherra? Ætli hann stingi ekki upp á því, að þau séu það, sem þau mega hæst vera? — O jú þannig hefir það verið og þannig mun það verða, enda vita tillögumenn það ofurvel, að alt að 2000 kr. þýðir hér sama sem fast ákveðnar 2000 kr. og þessvegna er því haldið fram, að það skuli svona vera, því að eftirlaunin vilja þessir menn ekki lækka, svo sem kunnugt er, heldur þvert á móti, þrátt fyrir það, að þjóðin heimtar afnám eftirirlauna sí og æ.

Það er rétt eins og háttv. 5. konungkj. sagði, að ákvæðið í breytingartillögunni á þingskjali 478 er alveg tvímælalaust, og það er áferðarfagurt, þar stendur að ráðherra hafi 1000 krónur í eftirlaun, en þess verður að gæta, að það eru 1000 krónur fram yfir önnur eftirlaun. Hann á að fá þetta sérstaklega. Þessi, sérstöku eftirlaun fyrir kannske nokkra mánuði eða nokkrar vikur í ráðherrastöðu.

Að hann hafi verið embættismaður áður má ekki taka til greina, að öðru leyti en því, að hafi hann rétt til hærri eftirlauna fyrir embættisrekstur áður, þá fær hann þau og á að sjálfsögðu að fá þau.

Annars er það mjög athugavert að halda þessum eftirlaunum svona fram, einkum þegar þess er gætt að ef ungur maður, t. d. einhver af þessum konungkjörnu, sem þessu vilja halda fram, verður ráðherra, máske einn mánuð eða svo, þá fær hann þúsund krónur árlega í eftirlaun auk eftirlauna þeirra, er hann áður átti tilkall til og er þá trygging fengin fyrir því, að hann þarf ekki að hreyfa sig framar. Hann hefir enga hvöt til að sækja um embætti aftur, lætur þjóðina ala sig iðjulausan um langan aldur. Og því álít eg sjálfsagt, að eftirlaunin ættu ekki að vera svo mikil.

Það hafa heyrst raddir hér í deildinni um það, að það muni ekki fást hæfir menn til að taka að sér ráðherraembættið, ef eftirlaunin verði lækkuð.

Mér þykir vera gert nokkuð lítið úr hugsjónum þessara hæfu manna, ef þeir eiga ekki að geta tekið að sér ráðherrastarfið af því að eftirlaunin hækka ekki við það.

Eg lít svo á, að menn þurfi ekki að vera að halda þessu svo fram af kappi, því að það kemur í ljós, að ef ráðherrar verða allmargir og komast á eftirlaun, þá vill þjóðin að eftirlaunin séu minkuð. Það stendur svo sérstaklega á með þessa menn, að þeir verða væntanlega ekki fastir í sessi. Eg myndi fella mig bezt við breytingartillöguna á þingskjali 507, og veit eg, að þeir muni greiða henni atkvæði, sem hafa einlægan vilja á að lækka eftirlaunin

Annars sé eg ekki að til neins muni að tala langt mál um þetta, þar sem menn munu vera fyrirfram búnir að ákveða hvernig þeir greiða atkvæði sitt, og því síður finn eg ástæðu til að tala nú, er eg talaði í þessu máli um daginn, þeir geysuðu þá allmjög sumir háttv. konungkjörnu þingmannanna og það svo, að jafnvel geðprýðin sjálf háttv. 5. konungkjörinn fann ástæðu til að vanda um við mig. Eg tek ekki tillit til slíkra umvandana og er rétt, að hann fái að vita það nú eitt skifti fyrir öll.

Þá var 4. konungkjörinn. Það fauk í hann svo, að hann mun ekki hafa vitað hvað hann sagði og eg vil alls ekki hafa orð hans eftir hér í deildinni. Þau voru lítt sæmandi háttstandandi embættismanni, sem kallað er. Og sanngjarnt ætla eg það að gera þá kröfu til þessara manna, að þeir verði sér ekki til minkunar á þingi. Eg bendi honum á þetta í þeirri von, að hann bæti ráð sitt eða gæti sóma síns betur næst.