02.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Steingrímur Jónsson:

Með því að skrifari og framsögumaður nefndarinnar er ekki á fundi, skal eg leyfa mér að gera stutta grein fyrir áliti nefndarinnar á þessu frv. N. d. hefir breytt því þannig, að það er orðið að efni til, eins og það var þegar það kom hingað í deildina í fyrstu, frá neðri deild. Nefndin er öll á einu máli um að fallast ekki á þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv., og vill því leggja til, að það verði fært í sama form eins og deildin gekk frá því um daginn. Hins vegar er skoðun mín á málinu hin sama og áður, að eg er mótfallinn frumvarpinu í heild sinni, og mun því greiða atkvæði móti því. En gangi málið fram, eru breytingartillögurnar til bóta, og mun eg því greiða atkvæði með þeim.