08.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

80. mál, aukatekjur landssjóðs

Framsögum. Steingr. Jónsson:

Nefndarálitið er stutt, og eg hygg að framsagan þurfi heldur ekki að vera löng. Nefndin ræður háttv. deild til að samþ. frumv. óbreytt. Það er samið af milliþinganefndinni í skattamálum, og stjórnin hefir lagt það nálega óbreytt fyrir þingið. Að eins hefir stj. hækkað gjöldin lítið eitt. Og neðri deild hefir mjög litlu breytt.

Aðalefni frv. er að aukatekjurnar eru hækkaðar til muna frá því sem þær eru ákveðnar í l. um aukatekjur þær, er renna í landssjóð frá 2. febr. 1894. Það mun vera til jafnaðar um helmings hækkun. Nefndin álítur þessa hækkun yfirleitt á rökum bygða, því að gjöldin voru lág áður. Það er búist við, að hækkunin nemi um 18 þús. kr. tekjuauka fyrir landssjóð, og hygg eg, að sú áætlun fari nokkuð nærri lagi, þó að auðvitað sé ekki gott að gera nákvæma áætlun um slíkt.

Það má helzt finna að frv., að einstaka liðir eru heldur mikið hækkaðir. T. d. dómgjöldin, þau eru hækkuð meira en um helming til jafnaðar. Eg fyrir mitt leyti hefði haft tilhneigingu til að breyta frv. að þessu leyti og lækka þessi gjöld dálítið, því að það munar mikið um að þurfa að greiða svona há gjöld, sérstaklega í smámálum. En af því að þetta var eina atriðið, sem ástæða þótti til að breyta, þá kom nefndinni saman um að hreifa ekki við frv., leggja til að það yrði sþ. óbreytt. Að vísu þótti nefndinni einnig helzt til hátt gjaldið fyrir veðbókarvottorð, en sá þó ekki ástæðu til að koma með br.till. um það.

Eg finn þá ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en legg til að háttv. deild samþ. frumv. óbreytt.