08.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

81. mál, erfðafjárskattur

Framsögum. (Steingr. Jónsson):

Með þessu frumv. er farið fram á stórkostlega breytingu á gildandi ákvæðum um erfðafjárskatt. Erfðafjárskatturinn er mjög mikið hækkaður. Milliþinganefndin í skattamálum hefir samið frumv. það, sem lagt hefir verið til grundvallar fyrir þessu frv. og eins og meiri hluti nefndarinnar gerði ráð fyrir var það sniðið að mestu leyti eftir lögum þeim, sem gilda í Danmörku um erfðafjárskatt. Frv. milliþinganefndarinnar lagði stjórnin nærri óbreytt fyrir þingið. Neðri deild hefir samþ. frumv., en með stórmiklum breytingum, sem allar ganga í hækkunaráttina. Hækkunin er mjög mikil frá því sem nú er. Var áætlað, að munurinn mundi nema um 4000 kr. á ári eftir frumv. stjórnarinnar, en hann nemur að líkindum alt að helmingi meiru, eins og neðri deild hefir gengið frá frumvarpinu.

Núgildandi ákvæði um þetta efni eru orðin meira en hundrað ára gömul. Eftir þeim eru erfðaskattsflokkar tveir og er skatturinn ½ af hundraði í öðrum flokknum, en 4½ í hinum. Í fyrri flokknum eru, hið eftirlifandi hjóna, lífserfingjar, foreldrar og systkyni, er þau ganga til arfs með foreldri, en í hinum flokknum allir aðrir erfingjar eða þeir, sem kallaðir eru útarfar. Í þess stað er nú ætlast til, að skattflokkarnir verði þrír. Í fyrsta flokki er það hjóna, er lifir hitt, og lífserfingjar eða niðjar hins látna. Í öðrum flokki foreldrar hins látna og niðjar þeirra, aðrir en þeir, sem eru í fyrsta flokki. Og í þriðja flokki eru fjarskyldari og óskyldir erfingjar. Í 1. flokki eftir frv. eru aðeins sumir þeirra, sem teljast til fyrri flokks eftir núgildandi lögum, þeir borga nú ½ % en eiga eftir frumv. að borga lægst l ? % þ.e. skatturinn er þar hækkaður um meira en helming. 2. fl. eftir frumv. tekur yfir afganginn af fyrsta flokki eftir núgildandi lögum og nokkuð af síðara flokki, þeir eiga nú að greiða lægst 5% í stað þess að sumir þeirra greiða aðeins ½ % og sumir 4½ % eftir núgildandi lögum. Og þeir sem tilheyra 3. fl. eftir frv. eiga að greiða lægst 11% í staðinn fyrir 4½ % nú. Þessi er nú hækkunin á frumgjaldinu. En þar við bætist svo önnur hækkun. Eftir núgildandi lögum eru þau bú skattfrjáls, sem ekki nema 200 krónum, en eftir frv. skal greiða skatt af öllum þeim búum, sem nema 100 krónum eða þar yfir. —

Hækkunin er svo mikil, að í sumum tilfellum er skatturinn jafnvel tífaldaður, nfl. á þeim sem nú tilheyra fyrra flokki, en tilheyra 2. fl. eftir frv. Af 1000 kr. arfi greiða t. d. eftir núgildandi lögum sumir 5 krónur og sumir 45 krónur, en eftir frumvarpinu greiða sumir 11 kr., en sumir þeirra, sem nú ættu að greiða að eins 5 kr. verða eftir frv. að greiða 50 kr., og sumir sem nú ættu að greiða 45 kr. eiga eftir frumvarpinu að greiða 110 kr. Það er því auðséð, að þetta er mikil hækkun. En verulegasta breytingin er þó innifalin í því, að fyrir utan þessa hækkun á frumgjaldinu, þegar arfur er ekki yfir 1000 krónur, þá er auk þess stighækkun, þegar arfurinn er hærri. Þar er þó ekki átt við það, að arfurinn í heild sinni, eða búið, nái þessari upphæð. Stighækkunin kemur fyrst til greina, er hinir einstöku arfahlutir eru yfir 1000 krónur. Þetta dregur nokkuð úr, svo að stighækkunin verður ekki nærri eins mikil eins og ef miðað væri við búið óskift. Í 1. flokki er skatturinn 1? % af fyrstu 1000 kr., eins og eg gat um áðan, en af næstu 100 kr. er hann 1 2/10 %, af 3. þúsundinu 1 3/10 % o.s.frv., þar til komið er upp í 5% af 40. þúsundinu, og því sem þar kynni að vera fram yfir. En þetta er alt miðað við arfahlutana, en ekki búið óskift, og skattur er að eins greiddur af fullum tug króna, það sem er fram yfir tug er ekki reiknað með. Í 2. fl. er gjaldið nærri 5 sinnum hærra af fyrstu 1000 krónunum, nfl. 5% en stighækkunin er hlutfallslega lík, 5½ % af 2. þús., 6% af 3. þús. o. s. frv., þar til komið er upp í 25% af 40. þús. og því sem þar er fram yfir. — Í 3. flokki er gjaldið enn helmingi hærra af 1. þús. eða 11%, 12% af 2. þús., 13% af 3. þús. o.s. frv., þar til komið er upp í 50% af 40. þús. og því sem þar yfir.— Það er fljótséð, að stighækkunin er afarmikil. Í Danmörku stígur skatturinn aldrei yfir 12%, og í frumv. stjórnarinnar var gert ráð fyrir hæstum skatti 14%. Í öðrum löndum er mér ekki kunnugt um þetta. Erfðaskattur mun vera hár í Noregi, en í Englandi má eg segja, að hann er 16% hæst eftir tillögum hinnar núverandi stjórnar þar, og það ekki nema af afarháum arfi.

Það má gera ráð fyrir því, að erfðir verði smáar fyrst um sinn hér á landi. Það verða ekki nema í einstöku óvanalegum tilfellum, að einn erfingi fái úr búi í einn hlut 40 þús. kr. eða meira. Eg skal leyfa mér að benda á með tölum hvernig erfðafjárskatturinn kemur niður í hinum ýmsu erfðaflokkum;

1. flokkur.

Af 1 þús. 11 kr.

" 10 " 155 "

" 20 " 410 "

" 30 " 765 "

" 40 " 1220 "

eða rúm 3%.

2. flokkur.

Af 1 þús. 55 kr.

" 10 " 775 "

" 20 " 2050 "

" 30 " 3825 "

" 40 " 6100 "

eða sem næst 16%.

3. flokkur.

Af 1 þús. 110 kr.

" 10 " 1550 "

" 20 " 4100 "

" 30 " 7650 "

" 40 " 12200 "

eða sem næst 30% af upphæðinni. Eins og eg sagði áðan, þá er þessi skattur hár, sérstaklega af háum upphæðum og af arfi fjarskyldra. Samt sem áður hefi eg ekki viljað vera á móti frumv., því það er mín skoðun, að ríkið eigi heimtingu á talsvert háu gjaldi af erfðum, sem ganga til fjarskyldra. Náskyldir hafa miklu meiri rétt til arfs en fjarskyldir, sem ekki hafa framfærsluskyldu. Þess vegna er rétt að hafa skattinn af erfðafé náskyldra lítinn. Það er eðlilegt, að þetta frumv. eins og allar nýungar sæti mótspyrnu fyrst í stað, en þar sem eg er samdóma því, sem þar er farið fram á í öllum aðalatriðum, þá get eg ráðið hv. deild til að samþ. það.

Eg skal svo leyfa mér að víkja nokkuð, að br.till. þeim sem nefndin fer fram á. Þær eru ekki stórvægilegar. Fyrstu 2 br.till. eru við 2. gr. B. 1. og 2., að í stað 6 komi 5½ % í stað 5½ % komi 6. Þetta er gert til þess að skatturinn komist í samræmi við 1. og 3. flokk. Þetta hafði lent inn í frumv. í neðri deild af vangá. Það er því ekki annað en formbreyting. Þá er br.till., við 3. gr., og er það efnisbreyting. Hún er við síðustu málsgrein greinarinnar, er hljóðar svo: „Af eigum hér á landi, er falla í arf við skifti, er fara fram í útlöndum, skal greiða erfðafjárskatt eftir þessum lögum til landssjóðs“. Þetta þótti nefndinni mjög athugavert og ekki réttlátt. Eg vil sérstaklega benda á, að það getur vel komið fyrir, að útlendingur, sem hefir annaðhvort dáið hér eða í útlöndum, eigi eigur hér að eins fyrir tilviljun, svo sem útistandandi kröfu eða fé í bönkunum, og þá þótti nefndinni ekki réttlátt að heimta af þeim erfðagjald hér, það gæti oft og tíðum orðið næstum sama sem að gera eignirnar upptækar, því að það má líka gera ráð fyrir því, að það yrði líka að greiða erfðagjald af þeim, þar sem búinu væri skift. Nefndin vill því breyta þessu þannig, að í staðinn fyrir „eigum“ komi „fasteignum“. Þá vill nefndin bæta aftan við þessa grein, að skip, sem skrásett eru hér á landi, skuli fara með sem fasteign. Nefndinni finst rétt, að erfðafjárskattur sé goldinn af íslenzkum fasteignum, og þá líka af skipum hér skrásettum, af því að um skip gilda yfirleitt sömu reglur og um fasteignir. Í þessu efni verða lög þessi í samræmi við dönsku erfðaskattslögin, sem leggja gjald á fasteignir en ekki á lausafé. Eg vonast eftir, að hv. deild samþ. þessa till. okkar. Eg skal geta þess, að eg hefi borið mig saman um þessa tillögu við nefnd þá, sem fjallaði um frumv. í neðri deild, og fengið að vita, að henni muni þar vel tekið.

Loks er br.till. við 3. lið 6. gr. 3. liður hljóðar svo: „Stjórnarráðinu er heimilt að undanþiggja erfðafjárskatti handrit, bókasöfn . . . ánafnaðir eða gefnir opinberum söfnum . . .“ Nefndin sá ekki ástæðu til að fela stjórnarráðinu að ákveða þetta, sá krókavegur er óþarfur. Henni fanst betra að setja það í lögin sjálf. Ef einhver vill vera svo vænn að gefa Landsbókasafninu dýrt handrit eða eitthvað því um líkt, þá á ekki að vera að leggja gjald á það. Eg held þetta ákvæði sé komið inn í frumv. af misskilningi, vegna ákvæða í dönsku lögunum.

Eg býst við, að hv. 2. kgk. þm. bendi á ónákvæmni, sem honum þykir kenna í 1. gr. frumv. Nefndin ætlar sér að taka það atriði til yfirvegunar við 3. umr.