08.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

81. mál, erfðafjárskattur

Framsögumaður (St. J.):

Viðvíkjandi því sem háttv. 2. kgkj. sagði, að skatturinn væri svo hár, að vafasamt yrði, hvort hann yrði til þess að auka tekjur landsins, þá er það rétt, að háar gjaldaálögur geta oft „skotið yfir markið“. En hér er þó sú bót í máli, að skatturinn er ekki svo mjög hár á þeim náskyldari. Það er bara í 2. og 3. flokki, sem hann er ýkja hár. Straumurinn bendir ótvírætt í þessa átt alt í kring um okkur. Erfðafjárgjaldið er altaf að hækka og hækka, svo þegar fram í sækir, þá verður ekki sérlega þægilegt að flytja í önnur lönd til að fá léttara gjald. Á Englandi er hámark gjaldsins 16% og eg býst ekki við, að þess verði langt að bíða að það verði hækkað þar, úr því að þeir nú einu sinni hafa komið því á. Nefndin og eg höfum nú lent með í þennan straum, að leggja undir ríkið erfðafé hinna fjarskyldari. Eg vil í þessu sambandi leyfa mér að minna á, að skattur af erfðafé, sem gengur til stofnana, er 10 af hundraði, og í 6. gr. er sagt, að stjórnarráðinu sé heimilt að færa hann niður í 5 af hundraði. Að því leyti sem háttv. 2. kgkj. benti á niðurlag 7. gr., þá vil eg geta þess, að vér munum taka það til yfirvegunar. Við vorum dálítið hikandi hvort við ættum að samþykkja það, höfðum ekki hugsað eins vel um það og háttv. 2. kgkj. hefir gjört. Eg mun bera þetta atriði undir nefndina, hvort ekki sé ástæða til að gjöra hér breytingu á, t. d. að 20falda upphæðina.