10.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Gunnar Ólafsson:

Eg heyrði því miður ekki alla ræða hv. 3. kgk. En það sem eg heyrði var ekki rök heldur eitthvað út í loftið, sem hann þó bannaði að andmæla. Þetta mál er þrautrætt, og er því varla þörf á að tyggja upp aftur það sem sagt hefir verið um það áður. Við 2. umr. færði eg rök að því, í hverju loftskeytasamband hefði yfirburði yfir símasamband og stendur það enn óhrakið á þessum stöðum. Aðalröksemd hv. 3. kgk. var það, að símastjórinn vildi símasamband. Mér skildist þetta vera aðalatriðið, að það væri goðgá að hafa aðra skoðun á þessu máli en hann. Með allri virðingu fyrir símastjóranum og þekking hans á þessu máli, þá get eg ekki kannast við það að þinginu sé skylt að fylgja þeirri skoðun, sem hann hefir. Eg álít að hv. 3.kgk. geti með alveg sama rétti sagt, að okkur væri skylt að trúa því sem hann sjálfur segði, hversu fjarstætt sem það annars kynni að vera. Hann talaði um það, að hér lægi ekki neitt fast tilboð um loftskeytastöðvar fyrir þinginu. Þetta er í rauninni ekki rétt, en þó svo væri, að tilboðið væri ekki nógu ákveðið, þá er hér staddur fulltrúi fyrir félagið, sem semja má við hvenær sem er. En það þýðir ekkert að semja til fulls, fyr en fé er veitt til fyrirtækisins. Honum hefði líklega ekki þótt það hyggilegt, að stjórnin hefði samið um byggingu stöðvanna áður en fé var veitt til þeirra, eins og gert var hér áður, þá er líkt stóð á, í óheimild þingsins. Þá sagði hann, að áætlun símastjóra væri svo viss, að þar yrðu engu raskað. En hann hefir gleymt því, að símastjóri hefir gert 2 áætlanir um þessa símalagningu. Árið 1909 átti sími til eyjanna að kosta 42,200 kr. en nú 1911 á hann ekki að kosta meira en 37 þús. kr. Hvor áætlunin er réttari, læt eg ósagt. En það er ekki rétt að segja, að engu verði raskað, þegar áætlanirnar eru hver á móti annari. Hv. framsögumaður sagði að ástæðan væri sú, að reynsla hefði fengist með lagningu símans til Garðsauka. En eg verð að mótmæla því, að nokkur reynsla sé með því fengin um lagningu sæsímans milli lands og eyja. Þá taldi hann það öruggan sannleika, sem símastjórinn hefir haldið fram í bréfi til þingsins, að tekjur mundu verða meiri af símasambandi heldur en af loftskeytasambandi. Þetta er vitanlega algerlega ósannanlegt. En allar líkur eru til þess að loftskeytastöðvar yrðu notað svipað og sæsíminn. Nauðsynlegar fréttir mundu verða sendar, hvort fyrirkomulagið sem haft yrði. En á hinn bóginn mundu skip, sem eru í förum eða veiða hér við land, útvega sér loftskeytatæki, þegar loftskeytastöðvar væru komnar upp hér á landi, og hefðum við þá tekjur af skeytum þeim er þau skip mundu senda, En það eru hreinar aukatekjur, sem ekki fást, ef símasamband er. Þess vegna hlytu tekjurnar af loftskeytasambandi að verða meiri en af símasambandi, því svæðið, sem loftskeytin ná yfir, er meira. Hv. 3. kgk. lýsti straum og botni milli lands og eyja, en sá galli var á þessari lýsingu, að hún var alveg skökk, og sýndi það svo greinilega, að hann þekti hvorki straumhraðann eða sjávarbotninn, og er það ekki ámælisvert. Hann sagðist vitanlega vera hræddastur um að botnvörpurnar mundu slíta símann. Hann viðurkendi, eins og sjálfsagt er, að hætta væri á því, en til að bæta úr þessu sagði hann að botninn væri svo grýttur á þessu svæði, að flest skipin mundu nota „rúllur“ á vörpunum og gætu þær því ekki skemt símann. En eins og áður er sagt, vantar háttv. þingm. þekkingu til að geta dæmt um þetta. Eg hygg að þeir noti aldrei „rúllur“ á þessu svæði; þeir nota þær, að sögn, þegar kemur vestur á Banka, sem kallað er, fyrir vestan eyjarnar. Hvernig botninn er í Álnum milli lands og eyja, skal eg ekki segja. Það getur verið, að þar sé grjótbotn, en nær landi er leirbotn, og næst því sandbotn. Þar draga skipin inn vörpur sínar án þess að hafa „rúllur“ á þeim og gætu því slitið símann. Yfirleitt nota þeir „rúllurnar“ ekki nema þeir megi til. Eg hefi búið við suðurströnd landsins mörg ár og þar af leiðandi oftar komið út í botnvörpuskip heldur en hv. 3. kgk., því að botnvörpuskipin draga ekki vörpur sínar um Hafnarfjörð, að eg hygg. Eg skal ekki þrátta meira um þetta mál; eg hefi sýnt fram á það áður, að rök hv. 3. kgk. og annara, sem á móti hafa mælt, eru æði reykkend. En þess vil eg geta, að mér finst liggja dálítið annað á bak við tillögu hans, háttv. 3. kgk., en hann lætur uppi; hún sýnir, að honum er ekki eins ant um að samband komist á milli Vestmannaeyja og lands eins og hann lætur í veðri vaka. Eg sé ekki betur en hann vilji koma í veg fyrir nokkurt samband. Hann vill ekki að landssjóður leggi meira til símans en 30 þús. kr., en það er sama sem að vera mótfallinn símalagningu til Eyjanna, því að fjárframlagið er ekki nærri nógu hátt. Það er engin afsökun, að 7 þús. kr. væntist frá Vestmannaeyjum, eða hvaðan kemur honum sú vissa að Vestmanneyingar vilji leggja eða geti lagt til þessa sambands. Eg held nú, að þeir vilji það ekki, því eg tel víst að þeir álíti það sjálfsagða skyldu landssjóðs að kosta sambandið. En þó að þeir vildu, þá gætu þeir ekki lagt neitt fé til þess. Þeir hafa annað fyrirtæki á prjónunum, sem er miklu meira virði fyrir þá, eg á við hafnargerð. Að vísu mundi samband hafa mikla þýðingu fyrir Eyjarnar, en eg veit, að það er ekki eins stórt lífsskilyrði eins og að laga höfnina. Ef Vestmanneyingar legðu fé til símasambands, þá væru þeir lamaðir frá því að leggja nokkuð til nauðsynlegra fyrirtækja, svo sem hafnargerðarinnar. Tillagan er því nokkurs konar banatilræði við framkvæmdir þeirra Eyjamanna, að öðru leyti. Eg álít hana skaðlega, ef hún nær fram að ganga, og vil mælast til að hv. flutningsmaður taki hana góðfúslega aftur og láti hana hvergi sjást. Honum á að vera kunnugt um, hv. tillögum., að landið á að kosta þessa línu, hvort heldur sem um loftskeyti eða símasamband er að ræða. En því er þá hv. 3. kgk. að koma með annað eins og þetta. Það hefir að vísu verið sú stefna í flokki þeim, sem hann fylgir, að pína fé út úr fátækum héruðum, sem landssjóður er skyldur til að kosta, svo sem símasamband og hefir það mælst illa fyrir að verðleikum. En hvað sem því líður, þá tel eg loftskeytasambandið hvorttveggja í senn, bæði langtum tryggara og ódýrara; ekki sízt með það fyrir augum, að fá um leið samband við Skaftafellssýslurnar, sem eru allra héraða verst sett í þessu efni, og munu að öðrum kosti eiga mjög langt í land til þess að fá nokkurt hraðskeytasamband. Skal eg því ekki fjölyrða meira um málið að sinni.