10.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Augúst Flygenring:

Það þýðir ekki að svara langt ræðu hv. þm. Vestur-Skaftfellinga, það mætti æra óstöðugan að elta allar þær krókaleiðir, er hann fór um þetta mál, sem hann auðvitað ekkert skilur í sjálfur. Loftskeytin eru fyrir honum hrein trúaratriði, og ekkert annað. Hann talar um að aðrir fari með reyk, en veit ekki sjálfur hve loftkendar þær staðhæfingar eru, sem hann heldur að séu rök. Hann sagði, hv. þm., að hér lægi fyrir umboð frá Marconifélaginu, og fulltrúi félagsins væri hér staddur með slíkt umboð og mætti því semja við hann o. s. frv. — En þetta er ekki rétt. — Það liggur ekkert slíkt umboð eða tilboð hér fyrir. En eg vildi leyfa mér að spyrja hv. þm. Vestur-Skaft., hvort sími til Vestm.eyja er lagður fyrir mig eða hann eingöngu, eða hvort hann er ekki heldur lagður fyrir almenning, og þá ekki sízt þau héruð, er næst liggja, þá alt fólkið. Eg vildi líka leyfa mér að spyrja hv. þm. hvort Vestm.eyingar sjálfir hafi óskað loftskeytasambands. Nei, það hafa þeir ekki gert — heldur þvert á móti, og væri þá ekki slíkt samband hér um bil það sama fyrir þá, og að gefa þeim steina fyrir brauð. Eg er ekki í neinum vafa um það. Eg verð að halda því fast fram, að á síðasta þingi hafi Vestm.eyjar verið fúsar á að leggja til símalínu 7—8000 kr. og eg býst við að svo mundi enn vera. Það var háttv. þingm. V.-Sk. sem með sínu atkv. þá tókst að svifta eyjarnar þessari sjálfsögðu samgöngubót. Eg er samdóma hv. þm. um, að þeir Vestm. ættu að borga lítið til línunnar, eða helzt ekkert, en geng út frá því líka, að þó þeim sé ætlað að borga hér nokkuð, þá mundi síðar hægt að fá eftirgjöf á einhverju af því, þegar það sýndi sig, að síminn borgaði sig vel, sem raun mundi á verða. En að þetta sé banatilræði við málið, nær engri átt. Annars skal eg ekki fara út í fleiri atriði í ræðu hv. þm., því hann hefir haldið alla þessa sömu ræðu fyrir nokkrum dögum hér í hinni háttvirtu deild, og held eg að engum hafi þá þótt taka því að vera að svara honum.