01.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Kristinn Daníelsson:

Úr því að umræður hafa orðið um þetta mál við þessa 1. umr., þá langar mig til að leggja líka orð í belg. Þetta er stórmerkilegt mál, og get eg ekki annað en viðurkent, að réttmætt sé að tala um það frá almennu sjónarmiði við 1. umr., svo sem venja er um stór mál. Óþarfi er þó að hleypa gusti eða rembingi í umræðurnar. Þær ættu að vera hóglegar og fara ekki út fyrir málefnið. Eg get ekki annað en litið svo á, að hér sé um stórmikið og merkilegt mál að ræða, ekki einungis fyrir Reykjavík, heldur fyrir alt landið. Það hefir verið sagt og er í rauninni rétt, að hér hefir engin framsöguræða verið haldin. Að vísu kemur málið frá Nd., og þarf því síður framsögumann, en þó er það venja, að mál, sem þaðan koma, eigi sér vísan mann, sem flytji þau í þessari deild.

En þetta mál er svo mikilsvert, að það þarf í sjálfu sér engan framsögumann. Það á það skilið, að öll deildin taki það að sér, þó ekki hafi verið útvegaður sérstakur maður til að „agítera“ fyrir því.

— Mér væri það hugkvæmast, að það yrði ekki Reykjavíkurbær heldur landið, sem annaðist fyrirtækið að öllu leyti og hefði allan arð af því. Því að þetta mál er fyrst og fremst landsmál; gagn og sómi landsins er grundvöllurinn undir því. Að svo miklu leyti sem eg hefi vit á, byggi eg mínar sterkustu vonir um framfarir í verzlun landsins og fiskiveiðum, á því, að hér í Reykjavík komi viðunanleg höfn. Eg hefi aðeins upp það, sem sagt hefir verið áður, þegar eg minni á þjóðmenningarhlið málsins, hversu mikla þjóðmenningarlega þýðingu það hefir, að einhver höfn sé til á landinu, þar sem lífi manna og varningi er óhætt. Það væri mikið gefandi fyrir, að ekki þyrfti að koma fyrir aftur álíka saga og þegar Reykvíkingar fyrir nokkrum árum stóðu, án þess að fá nokkuð við gert og horfðu á 22 menn detta hvern eftir annan úr reiðanum á skipi, sem komið var inn á höfn,

(Kr. J.: Skipið var ekki á höfninni).

Það var í sundinu milli Engeyjar og Viðeyjar; hvort það var utan eða innan við eyjartaglið skiftir ekki miklu. Hefði hér verið höfn þá, þá hefði saga þessa lands ekki haft frá þeirri sorg og smán að segja. En þrátt fvrir þetta alt, þá játa eg, að mál þetta hefir stór-athugaverða fjárhagshlið, og auðvitað er engin meining í að ráðast í þetta, ef það er fjárglæfrafyrirtæki. Hinsvegar hefir landið áður ráðist í stór fyrirtæki, og varla lagt fé til mála, sem líklegri voru til framfara. En samt sem áður þarf þessi hlið málsins nákvæma yfirvegun, og er því sjálfsagt að kjósa nefnd í það hér í deildinni, til þess að útvega þær skýrslur, sem hægt er að grafa upp til að upplýsa það. Eg tel víst að fá megi skýrslur um það, sem nokkuð megi byggja á, þó að ekki verði hægt að leggja allar tölur á borðið. Enda er minni þörf á nákvæmlega sundurliðuðum skýrslum í slíku máli, sem er í hverju landi viðurkent eitt sjálfsagðasta málið. En þrátt fyrir alt þetta, sem eg hefi sagt málinu til stuðnings, tek eg það fram, að komist væntanleg nefnd að þeirri niðurstöðu, að þetta sé glæfra-fyrirtæki, þá held eg mínu atkvæði frjálsu.