01.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Sigurður Hjörleifsson:

Eg get tekið undir flest þau hlýlegu orð, sem hv. þm. V.-Ísf. talaði um þetta mál. Eg ætla ekki að láta hv. 5. kgk. fæla mig frá því að vera vinveittur því, þó hann bregði mér um, að eg sé því fjandsamlegur, vegna þess, að eg hefi óskað eftir skýrslum um það. Það er ávalt talin nauðsynleg undirstaða undir hvert mál, að fengnar séu skýrslur um hina fjárhagslegu hlið þess. En það er víst ekki til neins að fara fram á slíkt að svo stöddu máli, þótt margir, sem sæti eiga hér í deildinni ættu að vera kunnugir þeirri hlið málsins. Að snúa sér til þeirra virðist vera að fara í geitarhús að leita ullar. Eg mótmæli því, að það að fara fram á slíkt, eigi skilt við rembing. eins og hv. 5. kgk. vildi kalla það. Hitt er miklu fremur rembingur að reyna að láta líta svo út sem það sé honum að

þakka, að málið kemst í nefnd, þar sem allir deildarmenn eru því vitanlega meðmæltir. Það er óhrekjanlegt, að aðalatriði og undirstaða málsins er það, hversu arðvænlegt fyrirtækið muni verða fyrir Reykjavík, samanborið við kostnaðinn. Það er líka fyllilega réttmætt að benda á það, að eins og málið kom fyrir þingið, leit út fyrir, að Reykjavíkurbær treystist ekki til að standa straum af fyrirtækinu nema að hálfu leyti. Auðvitað yrði höfn hér í Reykjavík hagnaður fyrir alt landið, og það er þingsins að meta þann hagnað, en á hinn bóginn er það Reykjavíkur að áætla, hve mikið bærinn muni geta borið af kostnaðinum. Eins og eg hefi þegar tekið fram oftar en einu sinni, þá er eg málinu hlyntur, en það er nauðsynlegt, að íhuga það og rannsaka miklu betur en gert hefir verið til 1. umr.