18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Kristinn Daníelsson:

Eg vildi aðeins segja fáein orð viðvíkjandi því, sem háttv. 4. kgkj. (St. J.) talaði um fjáraukalögin. Hann tók það fram, að það vantaði að færa til í fjáraukalögin 1908—’09 um 62 þús. kr. En eg sé ekki, að það geri neina breytingu á fjárhagnum eftir landsreikningnum 1908 og 1909. Það að lánað hefir verið út hefir ekki áhrif á hag landsins, en það hefir vitanlega haft áhrif á peningaforðann, það hefir gengið út yfir hann, þar sem yfirborganir hafa átt sér stað. Sama er að segja um fjáraukalögin 1910—’11, að eg get ekki séð, að þau snerti neitt fjárlögin 1912—’13 fyr heldur en menn sjái af landsreikningum 1910 og 1911 hvernig þetta lítur út. Áhrifin koma í ljós á sínum tíma, hvort heldur það verður tekjuhalli eða tekjuafgangur á fjárhagstímabilinu, Og það er eftir að sjá, hvort heldur verður. Eg hygg að ekki sé ástæða til að ætla, að fjárhagstímabilið 1910—’11 beri sig ekki. Árið 1910 hefir gert það og allar líkur til að ætla, að árið 1911 muni gera það líka. Eftir árferðinu og öllum kringumstæðum tel eg líklegt, að sá reikningur muni standa sig vel. En hvort tekjurnar verði svo miklar, að þær nægi til að jafna tekjuhallann, það eru spádómar.