14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

32. mál, stækkun verslunarlóðarinnar í Gerðum

Kristinn Daníelsson:

Mér hefir að vísu ekki verið falinn flutningur þessa máls hér í deildinni, en þar sem frumvarpið er mönnum áhugamál í héraði mínu, finn eg mér skylt að mæla nokkur orð með því við háttv. deild. Frumvarpið er til vor komið frá háttv. neðri deild og hefir fengið góðan byr þar í deildinni og slíkt hið sama vona eg að verði hér. Það fer fram á að stækka hina löggiltu höfn fyrir Gerðakauptúni í Gullbringusýslu — hvorttveggja á að ná inn að Rafnkelsstaðabergi. Höfnin er nú bundin við jörðina Gerðar. En svo stendur á, að lendingin er betri annars staðar í plássinu, en hún verður ekki notuð af því að verzlunarlóðin er bundin við nafnið. Héraðsbúum er þetta mikið áhugamál, því að þeir álíta verzlunarstæði betra annarsstaðar en það, sem nú er, getur verið; sumir hafa það að mótbáru gegn þessu frumvarpi, að löggildingin nái yfir svo stórt svæði, en það er þó ekki stórt hjá því svæði, sem löggilt var, er Keflavík var löggilt, því að það svæði náði frá Keflavík og inn undir Vogastapa.

Héraðsbúar höfðu hugsað sér að fá verzlunarlóðina stækkaða með því að fá stjórnina til að ákveða um þetta. En það reyndist ekki hægt að fá hana stækkaða með því móti. Stjórnin getur aðeins gert samþyktir eða ákveðið um þau svæði, er hafa verið löggilt, aðeins ákveðið um verzlunarlóðir innan takmarka hins löggilta svæðis.

Það getur verið að þrátta megi um nauðsyn á þessu. En eg hygg þó, að enginn kunnugur geti neitað, að hún sé fyrir hendi — og löggildingin getur engum hagsmunum orðið að skaða. Leyfi eg mér að vona, að deildin taki þessu litla frumvarpi vel.