14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

32. mál, stækkun verslunarlóðarinnar í Gerðum

Kristinn Daníelsson:

Það kann vel að vera, að það sé ekki í samræmi við tilgang löggildinganna að samþykkja slík lög, eins og háttv. þingm. Borgf. (Kr. J.) tók fram. Vegalengdin er þó ekki eins mikil og hinn háttv. þingm. minti. Vegalengdin frá Gerðum að Rafnkelstaðabergi er ekki nema 10—15 mínútna gangur. Mér heyrðist hann nefna Útskála. En það er ekki rétt, að svæðið nái þaðan. Útskálar eru yzt í plássinu, en Gerðar eru í miðju þess. En ef vér sjáum af svæðinu frá Keflavík að Vogastapa, þá er það alt að klukkutíma reið, sem þar um er að ræða. Það er því mörgum sinnum stærra svæði, sem þar hefir verið löggilt; það er því ekki nákvæmt að segja, að hér sé um heila sveit að ræða, heldur er það þéttbýlt sjávarþorp, er stendur á litlu svæði.

Það væri óbilgjarnt og myndi koma í bága við hagsmuni margra sýslubúa að neita þessu frumvarpi samþykkis. Það getur staðið á miklu fyrir sjóþorpið, að það verði að löglegu kauptúni. Kauptúnin hafa ýms hlunnindi og réttindi fram yfir aðra staði, sem raunar kann að vera óbilgjarnt, og ríða í bága við hag alls sýslufélagsins. Hér fyrir þinginu er einmitt frumvarp um breyting á vegalögunum, sem einmitt fjallar um þessa hagsmuni. — En eg hygg, að það geti að minsta kosti, ekki verið neitt athugavert við þetta frumvarp, ef gætt er venju þeirrar, er komin er á um löggildingar, — og eg vona, að háttv. deild hagi sér ekki öðru vísi í þessu máli en hún og þingið hefir gert hingað til.