10.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Sigurður Stefánsson:

Það er breytingartillagan á þskj. 617, sem eg vildi leyfa mér að fara um nokkrum orðum.

Orsökin til þess, að hún er fram komin, eru viðburðir þeir, sem fyrir skemstu gerðust í hv. neðri deild. Eins og kunnugt er, þá kom þessi liður á fjáraukalögunum nokkuð undarlega fyrir sjónir, var nokkuð halakliptur; það var að vísu sagt að stofna skyldi háskóla, en ekki veitt til hans neitt fé. Hér í deildinni var sett inn fé málinu til framgangs og er það auðvitað rétt, frá sjónarmiði þeirra manna, sem vildu að háskólinn tæki til starfa undir eins á komandi hausti, því auðvitað var ómögulegt að stofna háskóla án nægilegra fjárveitinga. En nú hefir hv. neðri deild fallið frá máli þessu að sinni, með því að ætla ekki fé til háskólans á fjárlögunum; og þá víkur málinu alt öðru vísi við. —

Eg lít svo á, að fyrst hv. neðri deild ekki vildi veita féð, þá verði efri deild að beygja sig, aðalfjárveitingarvaldið er auðvitað hjá neðri deild, og einungis af þessum hvötum er tillagan komin fram.

Annars skal eg fúslega játa, að eg stend nákvæmlega í sömu skorðum í máli þessu og á síðasta þingi —, eg taldi þá þegar lögin nokkuð fordildarkend.

Það var auðvitað réttilega tekið fram þá á þinginu, er lögin voru samþykt, að þingið réði því sjálft, hvenær fé yrði veitt til háskólastofnunarinnar, og enn stendur líka alveg eins á og þá, hvað húsnæði fyrir skólann áhrærir. Í fyrra átti að mega bjargast við Latínuskólann, og nú hafa ýmsir talað um alþingishúsið, þar á meðal framsögumaður þessa máls á síðasta Stúdentafundinum. En eins og kunnugt er, varð ekki af færslu þingtímans, og þar með álít eg það sund lokað. Latínuskólann má líka telja úr sögunni. Sennilegt er að bráðum verði stungið upp á þriðja húsnæðinu.

En sannleikurinn er sá, að þótt eitthvert húsnæði yrði talið viðunanlegt svo sem 3—4 mánuði, yrði strax farið fram á að byggja, og væri fé fyrir hendi, mundi eg vera með byggingu. Ef landssjóður hefði t. d. getað selt lóðir sínar — eg meina Arnarhólslóðina — þá hefði ef til vill úr þessu ræzt, en fyrir það er girt með heimskulegum lögum. En, sem sagt, aðalástæðan er að mínum dómi sú, að fyrst neðri deild hefir tekið svona í málið, tel eg sjálfsagt að efri deild beygi sig.