16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

93. mál, vélgæsla á íslenskum gufuskipum

August Flygenring:

Þegar frumvarp til laga um Stýrimannaskólann var hér til umræðu um daginn og samþykt var hið þarfa ákvæði um að stofna nýtt kennaraembætti við skólann, til að kenna gufuvélafræði, þá gat eg þess, að eg mundi koma fram með frumvarp til laga um atvinnu við vélgæzlu. Samskonar frumvarp var til meðferðar á síðasta alþingi, og var sett nefnd í málið í neðri deild. En málið sofnaði í höndum þessarar nefndar, líklega vegna tímaleysis, eða af því, að nefndarmennirnir hafa ekki álitið það þess vert að leggja rækt við það.

Með því að ýmsir þeir, sem stunda þessa atvinnugrein hafa óskað eftir að settar yrðu reglur um atvinnu við vélagæzlu á gufuskipum, þá sýndist mér rétt og nauðsynlegt að koma fram með þetta frumvarp því fremur þar sem það miðar til að greiða fyrir atvinnnuvegi, sem landsmenn byggja nú miklar vonir á, nfl. gufskipaúthaldi til fiskiveiða. Reglur um atvinnu við vélagæzlu miða í rauninni að því að tryggja bæði líf manna og verðmæti, og eftir reynslunni hér á landi í þessum efnum, er ekki vanþörf á slíkum reglum, því að það mun vera óhætt að segja, að þeir lélegu menn, sem orðið hefir oft að notast við til vélagæzlu hér, hafa eyðilagt stórfé sakir vankunnáttu.

Þetta frumvarp er nálega samhljóða frumvarpinu neðri deild á síðasta þingi. Eg hefi aðeins gert breytingu að því leyti, að í þessu frumvarpi er ákveðið, að stjórnarráðið setji reglugjörð um það, hvernig vélakenslunni við Stýrimannaskólann skuli háttað, og um próf og prófskilyrði. Þessa breytingu hefi eg gert eftir bendingu frá háttv. 5. kgk. þm. og álít þetta miklu hentugra en að setja lög um þessi efni. Það eru allar líkur til, að fyrirkomulag kenslunnar verði hagfeldara á þennan hátt, því að stjórnin hefir betri tíma og tækifæri en þingið til þess að afla sér góðra upplýsinga og hún mundi auðvitað setja reglugerðina með ráði fagfróðra manna. Auk þess er hægt að breyta slíkri reglugerð eftir kringumstæðum, þegar tímar líða og kröfurnar breytast.

Eg skal svo ekki orðlengja meira um þetta mál að sinni, en skal aðeins leyfa mér að mæla með því, að nefnd verði sett í málið og sting uppá 3 manna nefnd að umræðunum loknum.