01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsögum. Steingrímur Jónsson:

Frumvarp þetta hefir tekið allmiklum breytingum frá því það fór héðan úr deildinni. Gjöldin hafa hækkað um 67 þúsund kr. Meiri hluti nefndarinnar hefir ekki getað fallist á þessar breytingar Neðri deildar. Þó er það ein breyting, sem nefndinni hefir ekki fundist ástæða til að hreyfa við. Það er fjárveitingin til brúargerðar á Hölkná. Hún hefir verið hækkuð um 1000 kr., eða er nú 4500 kr., eins og hún var upphaflega. Það er ekki svo stór upphæð, að vert sé að gera slíkt að deilumáli milli deildanna.

Aðalbreytingin á frv. er sú, að loftskeytin hafa verið sett aftur inn í frumvarpið í 4. gr. Í fjáraukalagafrumvarpi stjórnarinnar var gert ráð fyrir því, og eins þegar það var hér til umræðu og meðferðar á dögunum, að veittar yrðu 48 þús. kr. til að koma upp loftskeytastöðvum í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Nú er hér bætt inn í nýjum lið, þar sem ákveðið er, að koma upp þrem nýjum loftskeytastöðvum, á Seljalandi undir Eyjafjöllum eða einhverstaöar þar í grend, í Vík í Mýrdal, og í Hornafirði og eru til þess ætlaðar 20 þús. kr. Þessar 20 þús. kr. eru alveg út í loftið. Þegar nefndin hafði þetta mál seinast til meðferðar, sást hvergi, að hægt væri að reisa slíkar stöðvar fyrir svo lítið fé. Það kemur ekki til mála, að ódýrara sé að koma á slíku sambandi milli Víkur og Hornafjarðar en milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Á skipum kosta slík áhöld minst 5—7 þús. kr. En á skipum er ekki að reikna neitt sérstakt fyrir byggingar, vélakraft, né íbúð handa starfsmönnum. Þessar 20 þús. kr. þýða því 40—50 þús. kr. aukin útgjöld. Reksturskostnaður verður og að minsta kosti 3 þús. kr. á hverri stöð. Alls og alls kosta þessi loftskeytasambönd því landið 80—90 þús kr. í stofnkostnað, og 15 þús. kr á ári í reksturskostnað. Eg vil nú benda á það, að það nægir ekki að setja tölur á pappírinn. Það verður að hugsa fyrir því, hvar féð á að fá. Nefndin getur ekki ráðið til að setja svona gífurleg útgjöld á pappírinn eins og Neðri deild hefir gert, ekki sízt þar sem gagnið er vafasamt og tekjurnar óvissar.

Þá vil eg minna á það, að sjálfir Vestmanneyingar hafa mótmælt loftskeytasambandi við Reykjavík. Fyrir þinginu liggur bréf frá 109—110 kjósendum, þar sem þeir mótmæla því, að slíkt samband sé sett á stofn. Það eru með öðrum orðum ? kjósenda þar í eyjunum, sem eru því mótfallnir.

(Ráðherrann: Sama er að segja um Vestur-Skaftafellssýslu).

Og mér finst, að hafa verði hliðsjón af vilja kjósenda, ekki sízt nú fyrir kosningarnar. Vestmanneyingar álíta sér þetta svo gagnslaust, en símann svo arðvænlegan, að þeir fara fram á að mega leggja hann á eigin kostnað.

Að síðustu skal eg geta þess, að ef þetta verður samþykt, verður að bæta 15 þús. kr. á fjárlögin. Þetta er með öllu óhafandi og óaðgengilegt.

Þá er Blönduósskólinn aftur settur inn í frumvarpið. Ástæður deildarinnar gegn honum eru svo kunnar, að það þarf ekki að rifja þær upp. Nefndin getur ekki fallist á, að rétt sé að veita fé til byggingar hans, og leggur því til að liðurinn B VIII í 5. gr. falli burt.

Þá er ný br.till. frá nefndinni við 6. gr., sem fer fram á það, að magister Guðm. Finnbogasyni sé veittur þúsund króna ferðastyrkur til þess að sækja þúsund ára hátíð Normandis sem fulllrúi Íslands þar. Bretagnebúar og Rouenbúar, frændur okkar, ætla að minnast þess í sumar, að nú eru þúsund ár liðin síðan norrænir víkingar fengu þar lén og ríki, og hafa boðið gestum frá Norðurlöndum að sækja þau hátíðahöld og þann fagnað, sem þar er í vændum í minningu þess. Þeir hafa sýnt Íslendingum þann sóma að bjóða mönnum héðan að taka þátt í þeim. Guðmundur meistari Finnbogason hefir fengið boð þangað, ennfremur hefir Bókmentafélaginu verið boðið að senda fulltrúa, og forseta sameinaðs þings hefir líka verið boðið að koma. Nefndinni þótti fara vel á því, að Íslendingar ættu sér fulltrúa á þessum hátíðum, eins og aðrar Norðurlandaþjóðir. Þessi heimboð Frakka mega vera oss gleðiefni; þau sýna, að þeir hafa hugboð um, að hér búi frændþjóð sín af norrænum kynstofni. Eg tel með öllu óviðeigandi að hafna þessu boði. Og vér eigum naumast völ á færari manni til þessarar farar en Guðmundi Finnbogasyni. Hann er, eins og við allir vitum, maður mjög vel mentaður, og nýkominn frá Frakklandi, og því ekki farinn að ryðga í frakkneskri tungu. Eg ber því engan kvíðboga fyrir, að framkoma hans verði ekki eins og land og þjóð mega una við. — Þess eru víst ekki mörg dæmi, að Frakkar hafi munað, að Íslendingar væru til, og færi illa á því, að vér gæfum slíku kurteisis-boði engan gaum.