22.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

83. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Jósef Björnsson:

Þegar mál þetta var til umræðu á síðasta þingi, þá kom til máls að það væri ekki rétt, samræmisins vegna, að veita konum þennan undanþágurétt, þær ættu að vera skyldar til að taka við kosningu alveg eins og karlmenn. En þá var því haldið fram, að þrátt fyrir ósamræmið væri þó alt að einu full ástæða til að veita konum þessa undanþágu, vegna þess að ennþá vantaði mikið á fult jafnrétti kvenna á móts við karlmenn. Þessi sama ástæða er fyrir hendi ennþá, engu síður en þá, því að konur hafa enn ekki fengið fult jafnrétti við karlmenn.

Það er ekki úr vegi að athuga þá spurningu, hvaða ástæður muni liggja til þess, að þetta frumv. er fram komið. Eg verð að játa, að eg hefi ekki heyrt þær ástæður, sem færðar hafa verið fyrir málinu í neðri deild. Eg get ímyndað mér, að höfuð ástæðan til þess, að frumv. er komið fram sé sú, að mönnum hafi virzt það koma í ljós, að þær konur, sem færastar væru, hafi skorast undan kosningu, en hinar ekki, sem miður voru færar til starfsins. Eg fyrir mitt leyti hefi orðið var við þetta eða heyrt þess getið, að miður hæfar konur hafa verið kosnar til opinberra starfa af því, að þær, sem voru álitnar bezt hæfar, gáfu ekki kost á sér. — Sé þetta alment, þá er það auðsætt, að af því getur leitt mikinn óhagnað, í fyrsta lagi fyrir konurnar sjálfar, af því að það spillir fyrir áliti kvenna til að taka þátt í opinberum störfum, og að hinu leytinu er það líka skaði fyrir þjóðfélagið, að þær konur taki þátt í stjórn opinberra mála, sem ekki eru vel til þess fallnar. En hjá þessum agnúum yrði fremur komist, ef allar konur væru skyldar að taka við kosningu, eins og karlmenn eru. Eg skal ekki segja um það, hvaðan óskirnar eru komnar, um að breyta þessu þannig, hvort heldur þær eru komnar frá konum eða körlum. Þetta skiftir líka minstu, því þó eg og að sjálfsögðu ýmsir fleiri, hafi heyrt því kastað fram, að óþarfi sé fyrir karlmenn, að neyða þessu að konunum, sem ekki óski þess, þá skiftir það minstu. Það gæti verið jafn réttmætt fyrir það. En eg er líka þeirrar skoðunar að ýmsar konur óski þessarar breytingar; eg hefi heyrt raddir í þá átt frá konum, að þessi undanþáguréttur, sem þær hafa nú að lögum, sé ekki heppilegur, af þeim ástæðum, að af honum geti leitt, að konur verði ranglega álitnar miður vel hæfar til opinberra starfa að svo stöddu. Þetta eru þá ástæður þær, sem mæla með frumvarpinu. En í fyrsta lagi má ekki gleyma því, að það vantar mikið á það ennþá, að konur hafi full réttindi til jafns við karlmenn og á meðan svo stendur er það ekkert ósanngjarnt, þó að þær hafi þennan undanþágurétt. Og á hinn bóginn get eg ekki betur séð en að konurnar geti sjálfar, með samtökum, komið í veg fyrir það, að þær sem laklega eru hæfar, verði kosnar til opinberra starfa. Það ætti að vera hægt fyrir þær, til þess að varðveita álit sitt, að fá vel færar konur til að gefa kost á sér af fúsum vilja til slíkra starfa. En hins vegar eru margar konur, sem hafa svo miklum og margvíslegum heimilisstörfum að gegna og eiga því mjög óhægt með að taka verulegan þátt í opinberum málum, og það er alls ekki æskilegt, að slíkar konur verði neyddar til að gefa sig við opinberum störfum. Í þessu liggur allur þungi málsins, og á þessa óhægð á því að gegna opinberum störfum legg eg mikla áherzlu í sambandi við undanþáguréttinn. Því verð eg að vera því mótfallinn, að þetta frumv. verði samþykt.