22.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

83. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Lárus H. Bjarnason:

Eg vil að eins bæta við einni ástæðu frá almennu sjónarmiði. Eg tel vafasamt, að kjörgengi til sveitastjórna og bæjarstjórna eigi að vera skyldukvöð. Kjörgengi til alþingis er frjálst og það væri að líkindum heppilegast, að kjörgengi til bæja- og sveitarstjórna væri einnig frjálst, og það alveg jafnt, hvort karlmenn eiga í hlut eða konur. Það getur naumast verið hentugt að taka menn nauðuga til að stjórna sveitarmálum, hitt þvert á móti vafalaust affarasælla að fá menn til þess starfs, eins og flestra annara, með frjálsum samningum, og væri auk þess ef til vill réttast að borga slíkt starf. Af þessum ástæðum get eg ekki verið með því að fara nú að leggja þessa skyldukvöð á konur, úr því að þær hafa verið lausar við hana hingað til. Enda verð eg að segja það, að það er ekki tilhlökkunarefni, t. d. fyrir gifta menn að hafa konu sína á alþingi, dóttur í bæjarstjórn og vinnukonuna kannske líka á öðrum hvorum staðnum. — Fyrir mér vakir þetta, að kjörgengi til þessara starfa eigi að vera frjálst, enda yrði vonandi ekki hörgull á fólki, sem gæfi kost á sér fyrir það, að minsta kosti ekki í kaupstöðunum.