24.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Gunnar Ólafsson:

Hv. 1. kgk. þm. tók flest fram af því, sem eg vildi segja, en það var þó eitt atriði, sem hann ekki nefndi, sem eg vildi leyfa mér að minnast á, sem sé um kostnað við húsabyggingar á jörðum. Eg er hræddur um, að ekki sé í raun og veru gott að setja bindandi lög um það atriði.

Það liggur í hlutarins eðli að leiguliði á að vera alveg sjálfráður um það, hvernig húsakynni hann býr við. — Vitaskuld er nú lögboðið að halda við húsum á jörðunum, en það eru aðallega fjós og eldhús sem viðhaldsskyldan hvílir á, miklu síður íbúðarhýbýli; þó mun það sumstaðar vera og alt of víða að leiguliði á að halda við svo og svo löngum bæjardyrum með vissri staura- og raftatölu eða eldhúsi í tiltekinni stærð, og tel eg þetta mjög skakt þar sem slíkt stendur fyrir eðlilegum og sjálfsögðum bótum á híbýlum manna.

Í þessu frumv, er ákveðið að jarðeigandi skuli leggja til ¾ hluta af byggingarverði húsanna, en verði það ákvæði samþykt, verður það að eins til þess að gera leiguliðana ennþá ómyndugri, að því er snertir húsaskipun og annað byggingarfyrirkomulag á ábýlisjörðum sínum.

Annars verð eg að vera algerlega mótfallinn því, að verið sé að blanda sér inn í prívatsakir manna, nema sem allra minst; það verður sjaldan affarasælt.

Í br.till. nefndarinnar stendur, að jarðeigandi skuli leggja til öll nauðsynleg bæjarhús, en síðar í greininni stendur nokkuð annað, og það er það, að jarðareigandi þurfi þó ekki að gjalda meira en áttfalt jarðargjaldið. Nefndin virðist sem sé ekki hafa athugað það, að nú eru menn stöðugt að reyna að fá betri hús, en eg get ekki séð að hægt sé að koma sér upp viðunanlegum bæjarhúsum fyrir þetta áttfalda gjald. Getur verið að fyrir þá upphæð mætti ef til vill fá viðunanlega baðstofu — það er alt og sumt. Og eg held, að það sé ekki framtíðarvegur. Það eru til margar jarðir, sem ekki er goldið af nema 50 krónur eða minna, og sú upphæð áttföld er hvergi nærri nógu stór til þess að fullnægja skilyrðum þeim, sem sett eru í 2. gr. frv. um að jarðareigandi skuli leggja fram verð nauðsynlegra hýbýla.

Þá vil eg einnig benda á, að í niðurlagi 3. greinar segir, að ef hús séu fallin skuli jarðareigandi skyldur að endurreisa þau, með ráði úttektarmanna. Þessi krafa finst mér í alla staði ósanngjörn, og eg tel líka alveg rangt að leyfa ekki ábúanda að haga byggingum sínum eftir eigin geðþótta, og svo er hitt atriðið, að ef húsum er ekki nógu vel haldið við, að dómi eða mati jarðareiganda og úttektarmanna, þá er það útbyggingarsök á hendur leiguliða. En allar þær kvaðir, sem valdið geta jafnþungum búsifjum, eða gefur jarðareiganda handhægt vopn á leiguliða, tel eg með öllu óhæfilegar. Það má svo oft finna sér það til að húsum hafi ekki verið viðhaldið, og af þeim ástæðum gætu útbyggingarsakir orðið alt of tíðar.

Eg vil þá að lokum taka það fram, að eg er alveg samdóma hv. 1. kgk. þingm. um það, að lög þessi eigi ekki að komast héðan út úr deiidinni, heldur eigi þau hreint og beint að falla undir eins.