24.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Það eru að eins örfá orð, sem eg ætla að leyfa mér að segja út af ræðu hv. þm. Vestur-Skaftfellinga, og skal eg grípa ofan í það, sem hendi er næst.

Hann sagði, að nefndin hefði ekki viljað styðja að betri húsabyggingum, og færði þar til ástæðu dæmi það, er eg nefndi um 800 kr. framlag á 20 hndr. jörð.

Hann verður þó að játa að 800 kr. á 20 hndr. jörð, er hreint ekki svo lítið byggingarfé. Að minsta kosti er eg viss um að bæjarhús á slíkum jörðum eru margvíða minna verð. Og eg er þess fullviss að hv. þm. getur sannfært sig um þetta, vilji hann gera sér það ómak að fá að líta á virðingargerðir bæjarhúsa í veðsetningaskjölum þeim, er liggja við Landsbankann. Þar mundi hann sjá að húsin eru víða margfalt minna verð en þetta. En hann sagði samt áðan, að í þessu væri engin bót fólgin, en því neita eg.

Þá hélt hv. sami þm. því fram, að úttektarmennirnir teldu venjulega raftana í húsunum, en hefir líklega haft fyrir augum peningshús nær því eingöngu, og því verið að tala um það, sem lá utan við málefnið, sem hér ræðir um, því fátt mun nú orðið til af reptum baðstofum. En ef hann heldur, að raftahús séu betri en hús, sem eru á annan hátt, þá fæ eg ekki skilið hugsanir hv. þm. V.-Skaftfellinga.

Hann fann einnig að því, sami hv. þm., að hér væri verið að blanda sér um of inn í prívatsakir manna. Það er þá að líkindum hans meining að láta leiguliðana gera alt, en jarðeigendana ekkert. Og líklega láta þá leiguliðana notast við raftakofana framvegis.

Mér skildist hann vilja láta einhverja fjárupphæð fylgja hverri jörð, en þá hefir hann líka gleymt að taka fram, hversu há sú upph. skyldi vera; ætti það að vera betra en 800 kr., sem hneyksluðu hann svo mjög? Mér fyrir mitt leyti finst, að það ástand, sem nú er í þessu efni, geti ekki haldið áfram að vera óbreytt, og mér finst heldur ekkert sérlega agalegt, þótt lögleitt væri, að jarðir skyldu vera leigðar með viðunandi bæjarhúsum. Það er því ver allvíða svo ástatt, að ekki er hægt að hleypa inn manni sökum ónógra og illra húsakynna,

Þá sagði hv. þm. Vestur-Skaftfellinga, að þetta frumv. ætti að fella strax. Það er þá líklega af því að hann er svo harðánægður með ástandið, sem nú er. En eg get fullvissað hann um að nefndin er á alt annari skoðun.

Skal og þá leyfa mér að víkja örfáum orðum til hv. 1. kgk. út af ræðu hans. Hann sagði, að kúgildin væru nauðsynleg, en nefndin lítur svo á, að þau séu oft leiguliða til byrði. Það getur leikið nokkur vafi á, hversu kúgildin séu tilorðin, en líklegast eru þau þó orðin til á þann hátt, að á niðurlægingartímum þjóðarinnar hafi leiguliðar oft verið svo fátækir, að þeir hafi ekki getað tekið jörðina, nema að fá nokkurn bústofn og hafi landsdrottnar tekið það til bragðs að setja kúgildin. En hvort þetta hefir verið gert nokkru fyr eða síðar skiftir engu.

Hv. þm. V.-Skaftfellinga sagði, að landsdrottni væri í sjálfsvald sett að gera alt að útbyggingarsök. Þetta er ekki rétt. Það getur ekki komið til nokkurra mála, að landsdrottinn byggi leiguliða út ástæðulaust, hvenær sem honum kynni að þóknast, þótt þessar breytingar, sem hér ræðir um, væri gerðar á gildandi lögum. Skal eg svo ekki fjölyrða meira um mál þetta að sinni, en þykist hafa sýnt, að ástæður andmælenda nefndarinnar séu veigalitlar, enda hafði hv. 2. kgk. þm. hrakið andmæli hv. 1. kgk. þm. að mestu.