29.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

106. mál, styrktarsjóður barnakennara

Kristinn Daníelsson:

Eg felli mig vel við gerðir nefndarinnar, og álít röksemdaleiðslur hennar góðar og gildar fyrir því, að fallast eigi á meginatriði frumvarpsins. En eg vildi að eins vekja athygli á því, hvort ekki mundi réttast, að láta 2. gr. frumv. sæta sömu forlögum. Mér virðist breytingin, sem felst í þeirri grein, vera of lítilfjörleg til þess að fara að breyta lögunum hennar vegna. En hins vegar munar sjóðinn dálítið um mismuninn, þótt ekki sé hann meiri en þetta. T. d. mundi tillagið af 2000 kr. launum verða kr. 32,50 eftir frumvarpinu í staðinn fyrir 40 kr. að núgildandi lögum. Það er ekki mikill mismunur fyrir mann með svo háum launum, en dregur sig þó saman, og getur munað nokkuð um það fyrir sjóðinn. Eg hygg að þeir kennarar, sem eru tiltölulega háttlaunaðir geti borið það, þó að þeir borgi dálítið hærra hundraðsgjald af launum sínum heldur en þeir, sem eru lágt launaðir. Annars nær breytingin ekki nema til örfárra kennara, því að allur þorri þeirra mun ekki ná því að hafa 500 kr. laun. Fáir kennarar hafa meira en 18 kr. um vikuna og til þess, að laun þeirra verði 500 kr. þarf kenslutíminn að vera 28 vikur. Hærri laun, eða lengri kenslutími mun vera sjaldgæfur. En þeir, sem kynnu að hafa hærri laun, standa sig þá betur við að greiða lítið eitt hærra gjald. Því get eg ekki séð ástæðu til annars en láta 2. gr. frumv. fylgja með hinum, og fella frumvarpið í heild sinni.