29.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

106. mál, styrktarsjóður barnakennara

Framsm. (Eir. Br.); Út af orðum hv. þm. V.-Ísf., vil eg taka það fram, að það er alveg rétt, að það getur verið mikið álitamál, hvort það er nokkur nauðsyn á þessari breytingu, sem felst í 2. gr. frumv. Það er satt, að breytingin er aðallega í vil þeim, sem hæst eru launaðir. En þeir eru svo fáir, að breytingin mundi ekki hafa neinn verulegan tekjumissi í för með sér fyrir sjóðinn. Á hinn bóginn er þess að gæta, að þar sem hér er að ræða um styrktarsjóð, sem verður úthlutað úr eftir þörfum þeirra, sem lagt hafa til sjóðsins, þá má búast við, að þeir, sem hærri hafa launin, muni síður en hinir njóta styrks úr honum. Það mundu fremur verða hinir, sem hafa lægri laun. Það sem frumv. ætlast til er þetta, að koma á samræmi í tillögunum og styrkveitingunum, þannig, að þeir, sem síst er búist við, að njóti styrks úr sjóðnum, verði ekki skyldaðir til að greiða tiltölulega miklu hærri tillög til hans. Það er hár skattur, t. d. af 2000 kr. launum, að borga 40 kr., sem að öllum líkindum ganga eingöngu til styrktar stéttabræðrum þess, sem tillagið greiðir, því að eins og eg benti á áðan eru mestar líkur til að þeir, sem hafa lægri laun, verði helzt styrks aðnjótandi. Þessvegna sýnist nefndinni ástæða til að létta dálítið á þeim, sem sízt mundu njóta góðs af sjóðnum.