30.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

117. mál, fiskveiðar útlendra við Ísland

Augúst Flygenring:

Eg vil að eins svara því sem hv. framsögum. sagði, að eg bæri hagsmuni útlendinganna svo mjög fyrir brjósti fram yfir innlenda menn. Það er ekki rétt, heldur þvert á móti. En eg held því fram, að útlendingarnir eigi líka einhvern rétt. Þeir geta sagt hingað og ekki lengra, ef þeim er sýndur heimskulegur ójöfnuður. Og þá býst eg við að mesti glansinn færi að fara af svona lagaðri lagasetningu. Eg þykist geta bent á það með ríkum rökum, að eigi maður að taka nótina og hlaða henni í búlka í hvert sinn, sem síldveiðaskip kemur inn í landhelgi, þá sé það nærri því það sama sem að banna þeim síldveiðar hér við land. Eg vil leggja það undir dóm allra sanngjarnra manna, hvort hér sé ekki um mjög svo ósanngjarna kröfu að ræða, sem er mikið umhugsunarefni, — ef málið annars á það skilið að nokkuð sé um það hugsað.