07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

117. mál, fiskveiðar útlendra við Ísland

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson):

Nefndin hefir orðið sammála um að það beri að taka tillit til bendinga frá yfirmanni varðskipsins í þá átt, að ákvæði núgildandi laga um síldveiði útlendinga séu ekki heppileg, og þurfi að setja nokkuð strangari ákvæði um þau efni. En hins vegar er nefndin líka sammála um það, að frumv. á þgsk. 353 geri helzt of harðar kröfur. Þar er mælt svo fyrir að ef útlent síldveiðaskip hittist í landhelgi, þó að það sé ekki að veiðum, þá varði það 200—2000 kr. sektum, séu nætur ekki í búlka innanborðs. Þetta sýnist nefndinni vera of hörð krafa, því að af þessu geta stafað mjög miklir örðugleikar fyrir þá, sem annars eru að löglegum veiðum. Ef síldveiðaskip ætlar t. d. að bregða sér til lands til að fá síld saltaða, þá getur það verið mikið óhagræði að þurfa að flytja nætur í búlka, og alveg nóg, að þær séu hafðar inni á skipinu. Þessvegna hefir nefndin gert breytingu á þessu ákvæði og væntir þess, að hv. deild samþykki það á þann veg. Önnur breyting á efni frumv. er sú, að sektarákvæðin eru tiltekin lægri. Nefndinni þótti sektarákvæðin of há og þótti hæfilegt að færa þau niður um helming, þannig, að í staðinn fyrir 200—2000 kr. komi 100—1000 kr.

Nefndin telur engan vafa á því, að það sé rétt að setja þessi lög og vonar, að þau geti komið að haldi. Þar með er að nokkru leyti fullnægt kröfum frá yfirm. varðskipsins, en eg skal geta þess, að þeir hafa ætlast til að nætur skyldu vera í búlka, en nefndinni sýndist ekki rétt að fara svo langt.