18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

112. mál, merking á kjöti

Sigurður Hjörleifsson:

Mér finst þetta mál vera dálítið varhugavert í því formi, sem það liggur hér fyrir í. Þetta er gott mál og það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, að dýralæknar fá trygðan stimpil sinn, sem þeir hafa til merkingar á kjöti. Það er engum hagur og allra sízt þjóðinni, að stimpillinn hafi ekki vernd. En saman við það er hér fléttað öðru máli, um að láta ólæknisfróða menn í þessum efnum skoða kjötið, og það álít eg mjög varhugavert, og meir að segja beinlínis hættulegt. Sú skoðun mun enga þýðingu hafa í augum annara þjóða. Þær munu ekki láta bjóða sér, að kjötið sé skoðað af ólæknisfróðum mönnum. Eg á hér sérstaklega við Dani, sem mest kaupa af kjötinu.

Eg vil því leggja til að 3 manna nefnd sé skipuð í þetta mál að lokinni umr.