07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

28. mál, sala kirkjujarða

Eiríkur Briem:

Viðvíkjandi tillögu hv. þm. Ísfirðinga, um að vísa máli þessu til nefndarinnar í prestslauna og kirkjumálunum, hér í deildinni, þá er eg ekki viss um, hve heppilegt það er. Í þeirri nefnd sitja 5 menn, og eg er hræddur um að orðið geti nokkuð erfitt að kalla þá saman, því að þeir hafa annríki mikið í ýmsum stórum nefndum. Annars finst mér málið nokkuð þýðingarlítið; það er oft svo lítill greinarmunur á hjáleigum og aðalbýlunum. Og jafnvel sjálfar jarðabækurnar eru nokkuð óljósar, að því er þetta atriði snertir. Það, sem í einni jarðarbókinni er talin hjáleiga, er í annari jarðabókinni talin sérstök jörð og eins öfugt.

Hér er alls ekki að ræða um hjáleigur, sem hnekkja mundu ábúð á prestssetrunum, að seldar væru, og það mundi líka ganga í gegnum margar hendur, hvort það ætti að selja þær eða ekki — og kæmi seinast til álita stjórnarráðsins. Nú eru það, sem áður voru sérstakar jarðir, taldar hjáleigur, og það, sem áður voru hjáleigur, eru nú sérstakar jarðir. Eg sé ekki annað en frumvarpið geti gengið fram nefndarlaust, og það er ekki til annars en trafala að fara að kalla saman 5 menn og halda fundi með þeim.