21.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

28. mál, sala kirkjujarða

Eiríkur Briem:

Það er alls ekki útlátalaust að skipa nefnd í þetta mál, svo áliðið sem nú er orðið þingtímans. Þingmenn hafa svo mikið að gera, að það eru orðin hrein vandræði að ná mönnum saman á fund. Og á hinn bóginn er þetta mál svo einfalt, að það er hreinasti óþarfi að íhuga það í nefnd. Eins og hv 5. kgk. tók fram við 1. umr. þess, inniheldur frv. ekki annað en það, sem er í lögum nú. Kirkjumálanefndin áleit engan greinarmun gerandi á hjáleigum og kirkjujörðum. Enda virðist ekki vera mikill munur á sérstökum býlum og hjáleigum sem t. d. liggja langt upp til dala og standa ekki í neinu sambandi við ábúðina á prestssetrinu. Oft er líka mikill vandi að skera úr, hvað sé hjáleiga og hvað ekki.

Í jarðabókunum er sumt talið hjáleigur fram að 1861, sem talið er lögbýli síðan; og eins er í nýju bókinni margt talið hjáleiga, sem talin voru sérstök býli í hinni eldri. Það getur því verið talsvert álitamál, hvað séu hjáleigur og hvað ekki. En hvað málið sjálft, söluna, snertir, þá er ekki á annað að líta en það, hvort hún snertir ábúðina á heimajörðinni; hvort það mundi skaða heimajörðina og rýra gildi hennar, ef hjáleigan væri seld.