21.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

28. mál, sala kirkjujarða

Ráðherra (Kr. Jónsson). Eins og hv. deild mun vera kunnugt, hefi eg frá upphafi verið mótfallinn sölu opinberra jarða, bæði landsjóðs- og kirkjueigna. Eg þykist því geta dæmt óvilhalt um þetta mál. Og ég lýsi því yfir, að eg sé ekkert því til fyrirstöðu og tel það sjálfsagt að samþykkja þetta frv., úr því á annað borð er búið að heimila með lögum sölu kirkjujarða yfirleitt. Þær hjáleigur, sem hér er um að ræða, eru réttnefnd sérstök býli eða sérstakar kirkjujarðir, og er ekkert að athuga við, að slíkar hjáleigur séu seldar. Hinsvegar verður að gæta þess vel að ekki séu seldar hjáleigur, sem eru partur af heimajörð og nauðsynlegar fyrir ábúð á henni. En að ekki er átt við slíkar jarðir, sést af orðunum í frv. gr.:

„enda séu gerð ummerki á túni, engjum og högum, þá matið fer fram“. Þetta ákv. sýnir ljóslega, að hér er aðeins átt við hjáleigur, sem eru sérstakar jarðir. Hv. 2. kgk. tók það réttilega fram, að það er mjög á reiki, hvað kallað hefir verið hjáleigur í jarðabókunum. Margar jarðir eru nú lögbýli og lögjarðir, sem kallaðar eru hjáleigur í gamla jarðamatinu. Eg sé því ekkert á móti því að samþykkja þetta frv., þó eg sé á móti sölu allra opinberra eigna yfirleitt.