18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

15. mál, verslunarbækur

Ráðherrann (Kr. J.):

Þetta litla, sem eg ætlaði að segja, verður að eins að höggva í sama farið og bera í sama lækinn sem hinir ræðumennirnir. Eg get ekki stilt mig um að nefna það, sem háttv. 5. kgk, þm. hefir bent á, að í 3. gr. þessa frumvarps er talað um 3. og 5. gr., en engin lög nefnd, sem þessar greinar eru í. Hvaða 3. og 5. gr. er það? Það er dálítið skrítið að vitna í lög án þess að nefna dagsetning og ártal þeirra. Maður skyldi ætla að þær væri í þessu frumvarpi. Það sést bæði á þessu frumvarpi og fleirum frumvörpum, sem hingað koma frá háttv. neðri deild, að málunum er hraðað æði mikið af. Eg geri annars ráð fyrir því að nefnd verði skipuð í málið og að einhver verzlunarfróður maður fái þar sæti — og fjölyrði svo ekki meira um þetta.