02.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

15. mál, verslunarbækur

Júlíus Havsteen:

Okkur í nefndinni var ekki vel við þetta frumvarp. Það voru þeir gallar á því, eins og það kom frá neðri deild, að það var bágt að eiga við það. Það eru yfir höfuð að tala örðugleikar á því, að breyta lögum á þann hátt sem hér er gert, sem sé fella breytingarnar inn í eldra frumvarpið, sem breytt, svo ekki verði nema eitt lagaboðið eftir sem áður. Og þó að nefndin hafi lagað frumv. nokkuð, svo að það falli betur inn í lögin frá 1909, þá eru víst ýmsir gallar á því enn þá. Það hefði mátt vel sætta sig við það, að láta breytingarnar koma út sem sérstök lög eða umbreyting á eldri lögunum og hefði verið vandalaust fyrir hvern mann að átta sig á þeim tveimur lögum alveg eins og einum. — Eg hefði helzt kosið að fella frumvarpið alveg, úr því svo miklir örðugleikar eru á því að koma málinu í frambærilegt form. Það getur varla verið til mikils skaða að málið bíði til næsta þings.