28.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík

Framsðgum. (Sig. Hjörleifsson):

Hér er að ræða um gott mál og merkilegt. Þar sem er holræsa og gangstétta gerð í höfuðstað landsins og mun þetta geta orðið til mikilla bóta fyrir þennan bæ.

Hér eru settar nákvæmar reglur, sem byggjast á samþyktum, sem bæjarstjórnin hefir gert og hafa verið samþ. í hv. neðri deild með litlum breytingum, en borgarstjóri hefir tjáð mér að hann sætti sig við þær.

Nefndin hefir orðið að öllu sammála um 1. og 2. gr. frv. og vill ráða deildinni til þess að sþ. þær. Aftur hafa orðið nokkuð skiftar skoðanir um 3. gr., að því er til gangstéttanna kemur; þó hefir nefndin komið sér saman um að ráða hv. deild til að samþ. þá grein einnig. Aftur vorum við allir sammála um að þau ákvæði 4. gr. væru feld burtu, þar sem ræðir um að kröfur bæjarstjórnar á hendur húsa og lóðaeigendum eftir 3. gr. séu trygðar með forgangsrétti í húseignunum. Okkur hefir öllum þótt lítil þörf á því og álítum að af því mundu leiða ómök og óþægindi á ýmsan hátt, sem væru meiri en þau þægindi, sem því væru samfara.

En við höfum ekki getað orðið sammála um 5. gr., þar sem 2 nefndarm. (meiri hlutinn) hv. 1. og 2. kgk. þingm. ráða til að sú grein sé feld burt.

Þar er ákvæði um að húseigendur skuli skyldir til að láta hreinsa þessar gangstéttir, en ekki bæjarstjórnin. Eg býst við að samnefndarmenn mínir geri grein fyrir sinni skoðun á þessu máli, en hún mun vera sú, að þeim þyki óþægindi of mikil að þessu fyrir húseigendur.

Eg tel rétt að 5. gr. standi, þó ef til vill mætti gera á henni smábreytingar og láta snjómokstur vera undanskilinn.

Annars mun þetta ákvæði greiða mjög fyrir hreinsun í bænum, og er það í lögum víða annarsstaðar, svo sem í Kaupmannahöfn, og gefst það þar vel.

Hér er um skoðanamun að ræða, þar sem meiri hlutinn vill að greinin sé feld, en eg vil að hún standi, nema þá að lítil breyting sé gerð á henni, en eg kem ekki fram með brtill. fyr en eg sé, hvaða undirtektir þetta mál fær.

Legg eg svo hið bezta með að málið fái framgang hér í deildinni.