05.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

154. mál, lántökuheimild

Sigurður Stefánsson:

Eg skal játa að eg man ekki glögglega, hvernig á hefir staðið með eldri lán, hvort þar hafa verið ákveðin lánsskilyrði eða ekki. En eg get fullyrt það, að frv. um lántökuheimild, sem samþykt var á síðasta þingi, ákvað glögglega hver kjörin skyldu vera.

En hér er um lán að ræða, sem ég verð að skoða sem hálfgert eyðslulán. Eg kalla sem sagt fjárframlagið til Hafnargerðarinnar í Reykjavík hálfgert eyðslulán. Eg vil taka það aftur fram, að eg er þess fullviss, að hæstv. ráðherra fer samvizkusamlega með lánið, en það gæti ef til vill stundum komið sér illa, ef einhver stjórn gæti tekið lán með hvaða vöxtum, sem henni þóknaðist.