26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

43. mál, læknaskipun

Sigurður Hjörleifsson:

Eg er sammála hv. 4. kk. þm., að ekki beri að fjölga að sinni læknishéruðum hér á landi. En eg get ekki séð, að þó að ranglega hafi verið breytt á fyrri þingum í þessu efni, þá sé rétt að halda áfram á þeirri braut. Það væri fremur ástæða til að lagfæra það sem óvarlega hefir verið gert. En hér er á fleira en þetta að líta. Læknum þeim, sem í þessum héruðum. sitja, væri að ýmsu leyti gerður ógreiði ef frv. þetta næði fram að ganga. Þeir yrðu sviftir atvinnu og miklum tekjum og það að óþörfu, því að þeir hafa alls ekki svo mikið að gera, að þeir geti ekki auðveldlega þjónað hvor sínu héraði. Sömuleiðis vil eg benda á það, að hætt er við því, að læknar verði lakari, ef héruðum er fjölgað of mjög. Þeir hafa minni æfingu, minna tækifæri til að auka þekkingu sína, og við það minkar eðlilega áhuginn. Þá er og eitt, sem eg vil minna hv. deildarmenn á. Hér er farið fram á að sniðin sé af Eskifjarðarhéraði alt að helmingi íbúanna. Læknirinn í því héraði segir, að það mundi svifta sig hér um bil helmingi tekna sinna. Þessum lækni var veitt embættið 7. ág. 1899, án nokkura skilyrða. Hann telur sig því hafa rétt til skaðabóta, ef héraðið er minkað. Sama er um lækninn á Seyðisfirði að segja; eg tel líklegt að hann mundi líka. heimta skaðabætur. Mér virðist því full ástæða til að íhuga þetta mál í nefnd. Landsstjórnin hefir áður orðið að borga skaðabætur í líku tilfelli. Eg held eg megi fullyrða, að læknirinn á Blönduósi, Júlíus Halldórsson, hafi fengið skaðabætur úr landssjóði af líkum ástæðum. Þó að það hafi verið sett inn í 1. frá 1907, um skipun læknishéraða, að læknar verði að sætta sig við breytingar á læknishéruðum, sem kunni að verða gerðar, þá er ekki þar með sagt, að þetta ákvæði nái einnig til þeirra lækna, sem tóku embætti áður en þessi lög voru samþykt. Af þessum ástæðum vil eg leggja til, að 3 manna nefnd verði kosin til að íhuga málið.