05.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

46. mál, lækningaleyfi

Sigurður Hjörleifsson:

Eg vil mæla með þessu frumv. Það eru ýms ákvæði í því, sem miða að því að bæta úr vandkvæðum á læknaskipuninni í landinu. Hinsvegar má líka geta þess, að sumt getur verið athugavert við frv., og tel eg þá ekki það sem flestir mundu talið hafa, því að eg tel engan veginn skaðlegt að takmarka lækningaleyfi. En það er dálítið annað, sem eg á sérstaklega við. Eg veit ekki betur en sum kirkjufélög kristninnar telji það þýðingarmikinn rétt kirkjunnar að leggja hendur yfir menn. Þessum rétti kirkjunnar hefir verið haldið fram á Englandi á seinni árum og er tíðkaður þar. Frv. mundi koma í bága við þennan rétt, ef hér væru kirkjufélög sem héldu honum fram. Hér er um gamlan rétt kirkjunnar að ræða, en þar sem hans gætir ekki hér á landi sem stendur, má ætla að þetta geri lítið til. Ennfremur má geta þess að frv. að öðru leyti getur riðið í bága við ýmsar af þeim skoðunum á meðferð sjúkdóma, sem nú eru að ryðja sér til rúms í heiminum. En vér verðum að líta á málið frá praktísku sjónarmiði, og þá vil eg mæla með frumvarpinu. Landlæknir hefir yfirfarið frv. eins og það er nú og telur að það mundi verða til bóta. Enda mun honum vera manna kunnugast um það, hve mikið ilt hefir leitt af lækningum ólæknisfróðra manna hér á landi.