20.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Kristinn Daníelsson:

Eg get skrifað undir það með hv. þm. Ísafjarðarkaupstaðar, að gott væri að mál þetta væri úr sögunni, en sannfæringar minnar vegna get eg ekki verið með því, að það hverfi úr sögunni á þann hátt, sem frv. þetta fer fram á.

Hér er um beina gjöf að ræða til eigenda þeirra jarða, sem kvaðir þessar hvíla á, og það hlýtur að ganga út yfir landssjóð og nemur talsverðu fé fyrir hann.

Eg hefi reiknað það út, að með því að meta hvert lambsfóður 4 krónur, þá mundi það svara til höfuðstóls, er næmi um 7000 krónum, en reikni maður lambsfóðrið 4,50 aura, þá til rúmlega hálfs áttunda þúsands.

Hér er líka um meginregluatriði að ræða, sem varhugavert er að brjóta. Þegar búið er að strika þetta út, er beinn vegur til að stryka annað út, sem líkt stendur á með, t. d. prestsmötuna, sem er mikill tekjuauki fyrir prestana, og um leið fyrir landssjóð. Þó að eg álíti að mál þetta sé að vísu óbrotið og þó að það hafi oft verið hér á þingi áður, þá er hér þó, eins og eg sagði, um slíkt meginatriði að ræða að eg geri það að tillögu minni, að 3 manna nefnd sé kosin til að íhuga málið.