07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Framsögumaður (Steingr. Jónsson):

Eins og háttv. deildarmenn sjá á nefndarálitinu, þskj. 476, hefir nefndin ekki getað orðið sammála. Meiri hluti nefndarinnar vill aðhyllast frv. óbreytt. Við álítum að þessi kvöð, sem aðeins hvílir á 67 búendum í Norðurmúla- og Norður-Þingeyjarsýslum, sé óréttlát og úrelt. Sérstaklega ber mikið á þessu ranglæti nú, þegar gjöldum til presta hefir verið breytt og lambsfóðrin numin úr gildi. Því álítum við rétt að nema þessi einkennilegu sérgjöld úr gildi, því fremur sem þetta er í 8. eða 9. sinn, sem frv. um þetta efni er borið fram á þingi, og má af því sjá hve gjöldin eru illa liðin. — Að vísu er með þessu létt kvöðum af þessum jörðum og má búast við að jarðirnar hækki við það í verði og eigendurnir auðgist á því. En þess er að gæta að margar af þessum jörðum, að minsta kosti 16 eða 17, eru opinberar eignir, og þar af leiðandi kemur alt í sama stað niður hvað þær snertir. En hinsvegar verður því ekki neitað að uppgjöf kvaðanna af hinum jörðunum er í rauninni gjöf til eigendanna. Að vísu kemur verðhækkunin ekki fram fyr en leigumála er breytt eða jörðin seld, en meðan leigumáli er óbreyttur, kemur uppgjöfin leiguliðunum að gagni. Hinsvegar er ekki víst að eigendur jarðanna vildu svara út neinni verulegri peningaupphæð til þess að létta þessum kvöðum af leiguliðunum, og þessvegna álítur meiri hluti nefndarinnar rétt að afnema kvöðina endurgjaldslaust. Enda er hér ekki um mikla upphæð að ræða. Ef fóðrin eru metin eftir verðlagsskrá, mundi öll upphæðin nema 225 kr. á ári, ef jarðirnar, eru taldar 50, því að þær jarðirnar, sem eru opinberar eignir, geta ekki talist með til tapsins, og bæði rétt og sjálfsagt að létta kvöðunum af þeim, hvað sem hinum líður.