07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Sigurður Stefánsson:

Eg tók það fram þegar við 1. umr. þessa máls, að eg væri fyrir löngu orðinn dauðleiður á þessum blessuðum lömbum, og mér finst þetta einstakt hégómamál. Upphæðin öll nemur ekki meira en þrem hundruðum króna, og að hún skuli geta vaxið í augum þess þings, sem voterar um fleiri hundrað þúsund kr. útgjöld úr hálftómum sjóði, get eg ómögulega skilið, og mér finst það öldungis sama og að sía mýfluguna, en gleypa úlfaldann. Eins og eg hefi áður tekið fram, þá lendir þessi kvöð á leiguliðunum, þeir verða að dragnast með þetta, þegar annars er búið að afnema öll lambseldi í landinu. Og það situr sízt á þeim mönnum, sem ekki eru hræddir um fjárhagsástandið, að vera að gera veður út af öðru eins lítilræði og þessu.