04.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

31. mál, rottueitrun

Framsögum. (Steingr. Jónsson):

Eg þarf ekki að vera fjölorður um þetta mál, því að nefndarálitið lýsir skoðun nefndarinnar greinilega. Hún lítur svo á sem hér sé alls ekki um lítilsvert mál að ræða. Rottur eru nú allmikill vágestur í flestum kauptúnum og kaupstöðum landsins. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin gat aflað sér, er mikill skaði að þeim, og væri því þýðingarmikið að geta fækkað þeim eða útrýmt. En þótt henni þætti það miklu máli skifta að geta útrýmt rottum, gat hún ekki ráðið deildinni til að sþ. frumv. þetta. Með því eru lagðar þungar byrðar á kaupstaði og sveitarfélög. Nefndinni hefir borist bréf frá bæjarstjórn Reykjavíkur, þar sem því er mótmælt, að frv. verði að lögum, að því er Reykjavík snertir, og gert ráð fyrir, að það hafi í för með sér 40 þús. kr. kostnað fyrir bæinn. Það er að vísu ekki gott að segja um, hve kostnaðurinn muni nema miklu. En eftir reynslu Dana í þessum efnum, er það víst, að hann hlýtur að verða mikill. Nefndin lítur svo á, sem ekki sé rétt að leggja allan þann kostnað, er af útrýming á rottum leiðir, á sveitarsjóðina. Henni þykir réttara að skifta því á 3 aðila, er allir hafa hag af því, að rottum sé útrýmt, þannig, að landssjóður borgi t. d. einn þriðjunginn, sveitasjóðir einn og einstakir menn eða húsráðendur einn. Allir þessir aðilar hafa hag af útrýmingunni. Í Danmörku er þessu þannig komið fyrir, að félög hafa verið stofnuð, er tekið hafa að sér að gangast fyrir, að rottum væri eytt. Sveitarstjórnir hafa umsjón með því, hvernig útrýmingin fer fram. Bæði sveitarsjóðir og ríkissjóður leggja fram fé til hennar. Auk þess er bannað að ala rottur upp eða hlynna að því, að þeim fjölgi.

En áður en lagt er út á þessa braut, þótti nefndinni réttara, að rannsakað væri, hve mikill kostnaður mundi leiða af þessu, hvar rottur gerðu mestan usla, og hver aðferð sé heppilegust við útrýminguna. Og því leggur nefndin til, að þingdeildin skori á landsstjórnina að taka málið til athugunar og rannsóknar og leggja frv. um það fyrir næsta þing.

Eg skal geta þess, að það kom til tals í nefndinni að gefa sveitarstjórnum heimild til að gera samþyktir um útrýming á rottum. En hún leit svo á, sem á móti þessu mælti í fyrsta lagi það, að menn mundu horfa í kostnaðinn, og því eigi hagnýta sér þessa heimild, og í öðru lagi mundi samvinna milli sveitarfélaga vera óhjákvæmileg, en erfitt að koma henni í framkvæmd. Takmarkinu mundi því alls ekki verða náð með slíkum lögum.